„Mér líður ótrúlega vel. Ég er svo glöð og stolt af liðinu og okkur öllum. Þetta er yndislegt,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir, fyrirliði Breiðabliks, eftir 3-1 sigur á Selfossi. Sigurinn þýðir að Breiðablik er Íslandsmeistari 2018.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 1 Selfoss
„Ég er svo ánægð að við kláruðum þetta á heimavelli fyrir framan fólkið okkar. Það er geggjað að fá að fagna hérna með þeim. Það er mikið af fólki sem stendur á bakvið okkur,“ sagði Sonný en það voru 433 áhorfendur á Kópavogsvelli í kvöld.
Fyrri hálfleikurinn gekk ekki alveg upp hjá Blikum og það voru gestirnir í Selfoss sem leiddu óvænt 1-0 í hálfleik.
„Við byrjuðum vel en fengum svo smá panikk og urðum mjög lélegar. Selfoss voru flottar og skoruðu flott mark. Svo ræddum við bara um það í hálfleik að slaka á og spila okkar bolta, þá kæmi þetta.“
„Það var engin hárþurrka. Við vissum alveg að markið myndi koma og svo bara keyrðum við á þær og kláruðum þetta.“
Sonný efaðist aldrei um að Blikar gætu unnið tvöfalt. Það hafi alltaf verið markmiðið.
„Við fórum inn í tímabilið með tvö markmið. Skrifuðum þau niður. Íslandsmeistarar og Bikarmeistarar og við getum tékkað við það bæði,“ sagði fyrirliðinn að lokum en hún hefur átt frábært sumar. Staðið vaktina aftast hjá Blikaliðinu sem hefur aðeins fengið á sig 9 mörk.
Nánar er rætt við fyrirliðann í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir