„Mér fannst við fá tækifæri til þess að klára þennan leik í venjulegum leiktíma. Blikarnir hinsvegar líka. Þegar upp var staðið var þetta fínt," sagði Pétur Pétursson þjálfari kvennaliðs Vals eftir sigur á Breiðabliki eftir vítaspyrnukeppni í leik liðanna í Meistarakeppni KSÍ.
Lestu um leikinn: Valur 4 - 2 Breiðablik
„Ég var ánægður með margt. Mér fannst pínu vorbragur yfir þessu en samt inn á milli var þetta mjög gott," sagði Pétur en markalaust var eftir venjulegan leiktíma.
Athygli vakti að Pétur gerði einungis eina breytingu á liðinu allan leikinn.
„Ég er bara svo sérstakur. Mér fannst þetta bara vera allt í lagi eins og þetta var," sagði Pétur aðspurður út í ástæðuna á fáum breytingum.
„Það eru einhverjir meiddir hjá okkur eins og gengur og gerist. Þetta fer vonandi að smella hjá þeim," sagði Pétur sem gerir ekki ráð fyrir að bæta við sig en er þó tilbúinn í að skoða það.
„Ég er ánægður með hópinn. Ef það dettur eitthvað inn þá styrki ég örugglega. Ég vil helst hafa þrjátíu manna hóp. Ég er með tuttugu leikmenn núna. Ef ég get fengið tíu leikmenn í viðbót, þá er það allt í lagi," sagði Pétur Pétursson léttur í bragði í lok viðtalsins.
Athugasemdir
























