Íslenski félagaskiptaglugginn lokar á miðnætti þann 26. júlí. Eftir það geta félög ekki styrkt sig með nýjum leikmönnum. Gluggarnir verða þó áfram á mörgum stöðum erlendis.
Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Breiðabliks, í dag og spurði hann sérstaklega út í tvo leikmenn; þá Ísak Snæ Þorvaldsson og Jason Daða Svanþórsson. Þeir hafa átt góð tímabil, eins og reyndar mjög margir í liði Breiðabliks, og eru eflaust undir smásjá erlendra félaga.
Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Breiðabliks, í dag og spurði hann sérstaklega út í tvo leikmenn; þá Ísak Snæ Þorvaldsson og Jason Daða Svanþórsson. Þeir hafa átt góð tímabil, eins og reyndar mjög margir í liði Breiðabliks, og eru eflaust undir smásjá erlendra félaga.
„Ég á von á því (að þeir klári tímabilið með Breiðabliki) en auðvitað er glugginn í Evrópu og Skandinavíu áfram opinn og lokast því miður ekki eftir viku. Auðvitað vonast allir Blikar eftir því að þeir klári tímabilið með okkur, þeir eru báðir lykilmenn í liðinu," sagði Óskar.
„Það er erfitt að ætla fara sjá eitthvað of langt fram í tímann. Fókusinn er á leiknum á morgun og hvað gerist eftir hann verður að koma í ljós. Ég held það sé langbest að nálgast þetta þannig að við tökum það þegar við komum að þeirri brú, hvort sem það sé næsti leikur eða einhver tilboð eða hvernig sem það er."
Hafiði rætt við leikmennina og hlerað hvað þeir vilja?
„Það eru endalaus samtöl í gangi við leikmenn og ég held að það sé alveg skýrt hvað menn vilja. Auðvitað vilja held ég allir í hinum fullkomna heimi klára tímabilið með Breiðabliki og reyna enda það á sem farsælastan hátt og nokkur kostur er. En auðvitað er það alltaf þannig að í fótbolta - eins og í lífinu sjálfu - þá henta tímasetningarnar ekki alltaf fyrir alla."
„Á meðan það er ekkert upp á borðum þá held ég að sé eins gott að hugsa ekki um það," sagði Óskar.
Ísak Snær hefur komið að sextán mörkum í Bestu deildinni í sumar, skorað ellefu og lagt upp fimm í tólf leikjum og er sá leikmaður sem hefur bæði skorað og komið að flestum mörkum í deildinni. Jason Daði hefur komið að næstflestum mörkum í deildinni í sumar. Hann hefur skorað sjö og lagt upp sex. Ísak er fæddur árið 2001 og Jason árið 1999. Báðir spiluðu þeir með yngri flokkum Aftureldingar.
Sjá einnig:
Óskar Hrafn: Þeirra hættulegustu menn eru fæddir 2003 og 2004
Ekki orðið var við neina óþolinmæði hjá Jasoni og Ísak (28. júní)
Athugasemdir