
Arnór Sigurðsson er mjög vel stemmdur fyrir leik Íslands og Bosníu/Hersegóvínu sem fram fer í Zenica á fimmtudagskvöld. Arnór ræddi við Fótbolta.net í München í dag en þar fer undirbúningur íslenska liðsins fram.
„Það er geggjað að undankeppnin sé að byrja, mikilvægir leikir og mikið undir. Liðið er vel gírað og það er ég líka," segir Arnór.
„Það eru margir í okkar hóp að spila mikið og spila vel. Það er stór plús fyrir þetta verkefni að við séum með menn í fantaformi."
„Ég veit að við erum vel gíraðir og vel stemmdir í þetta. Við höfðum eiginlega allt árið í fyrra til að undirbúa okkur undir þetta. Ég held að liðið gæti ekki verið á betri stað en í dag."
„Við förum inn í alla leiki til að vinna þá. Það er ekki spurning. Þetta verður barátta og þolinmæði. Við verðum að vera tilbúnir í það. Við verðum að vera með kassann úti og hafa trú á því sem við erum að gera. Við erum með flottan hóp og við erum í riðli sem gefur okkur góða möguleika. Þetta snýst um að ná í úrslit og það byrjar núna á fimmtudaginn."
Viðtalið má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan en þar talar Arnór meðal annars um tímabilið framundan hjá Íslendingaliðinu Norrköping í Svíþjóð.
Athugasemdir