„Tilfinningin er alltaf góð þegar við vinnum," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, eftir 1-3 sigur gegn Fram í Bestu deildinni í kvöld. Valsmenn eru með sex stig eftir þrjá leiki.
„Mér fannst frammistaðan alveg verðskulda þrjú stig."
„Mér fannst frammistaðan alveg verðskulda þrjú stig."
Lestu um leikinn: Fram 1 - 3 Valur
Valsmenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og hefði Arnar viljað sjá lið sitt nýta það betur. „Það vantaði herslumuninn upp á að búa til algjör dauðafæri. Ég hef trú á því að það muni batna á komandi vikum."
Arnar var spurður út í ódýra vítaspyrnu sem Valur fékk undir lok fyrri hálfleiks. „Ég sá það ekki en ég hef heyrt að það hafi verið ódýrt. Ég sá atvikið sem gerðist eftir fimm mínútur og það var klár vítaspyrna. Þegar Guðmundur Andri er tekinn niður og það er óskiljanlegt að hann hafi ekki flautað á það."
„Það var 100 prósent víti. Svo er mér sagt frá tæknimanninum okkar þegar við skorum 2-1 eftir tvær eða þrjár mínútur í seinni að það hafi engin rangstaða verið. Það er blóðugt þegar svoleiðis er. Þetta getur spilað svo stóra rullu í leiknum. Sem betur var það ekki þannig í dag, en það hefði getað verið þannig. Eftir að það var dæmt af þá fá þeir víti."
Framarar voru ósáttir með dómgæsluna í leiknum en Arnar var það líka.
„Ég veit ekki af hverju þeir eru ósáttir, mér fannst halla verulega á okkur... mér fannst Helgi ekki eiga góðan dag, hann var virkilega slakur."
Ræddi Arnar eitthvað við hann eftir leik? „Nei, það hefur ekkert upp á sig. Ég átta mig alveg á því að Helgi er að reyna að gera sitt besta. Hann er eins og við öll, við eigum misgóða daga. Ég held að þetta hafi verið virkilega slakur dagur hjá honum í dag."
„Við erum búnir að spila þrjá leiki og mér finnst heilt yfir frammistaðan hafa verið góð. Við erum ósáttir með að vera ekki með meira en sex stig. Sigurinn í dag og sigurinn á móti ÍBV voru fyllilega sanngjarnir. Mér fannst það ekki sanngjarnt hvernig við töpum á móti Blikum. Þú færð ekki alltaf það sem þú átt skilið í fótbolta, það er það sem gerir þennan leik skemmtilegan."
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan þar sem Arnar ræðir meðal annars um meiðslastöðuna á liðinu og hvort að Valur ætli að sækja sér leikmenn áður en glugginn lokar.
Athugasemdir