fim 24.apr 2025 16:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeild kvenna: 10. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeild kvenna í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð í deildinni. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Aftureldingu er spáð neðsta sæti deildarinnar en það er óhætt að segja að það sé lítil bjartsýni því að Mosfellingar geri góða hluti í sumar.
Hildur Karítas, algjör lykilmaður, verður líklega ekkert með í sumar þar sem hún sleit krossband síðasta sumar.
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Sigrún Gunndís fór í Smára í vetur. Það fór mikil reynsla með henni.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ariela Lewis lék með Aftureldingu síðasta sumar. Hún er mikill markaskorari.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9.
10. Afturelding, 26 stig
10. Afturelding
Það kemur í hlutskipti Aftureldingar að vera í neðsta sæti í þessari spá. og þær voru ekki bara neðstar, heldur langneðstar hjá þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar. Það er mikill munur á Aftureldingu og liðunum fyrir ofan. Og það er mikill munur núna hjá Aftureldingu miðað við á sama tíma í fyrra. Þeim var spáð efsta sæti deildarinnar í fyrra en enduðu að lokum í sjöunda sæti eftir frekar mikið miðlungssumar. Það hefur gengið mikið á hjá félaginu í vetur og var ekki stjórn í kringum kvennaliðið lengi vel. Það hefur haft áhrif á gengi liðsins í vetur og er liðið ekki á frábærum stað á leiðinni inn í mótið.
Þjálfarinn: Perry Maclachlan tók við sem þjálfari Aftureldingar fyrir síðasta tímabil og hann er á leið inn í sitt annað sumar sem þjálfari liðsins. Hann hefur þjálfað á Íslandi frá árinu 2019, fyrst sem aðstoðarþjálfari karlaliðs Þórs og markmannsþjálfari, svo sem aðstoðarþjálfari og aðalþjálfari Þórs/KA. Fyrri hluta sumarsins 2023 stýrði hann KR í Bestu deild kvenna áður en hann var óvænt rekinn. Núna er hann á leið inn í sitt annað sumar í Mosfellsbæ og bíður hans mikið verkefni.
Stóra spurningin: Hvað hefur verið í gangi?
Hvað er það sem veldur því að Afturelding fer úr því að vera spáð efsta sæti á sama tíma í fyrra og í það núna að vera spáð langneðsta sæti? Þetta er svo sannarlega ótrúleg breyting, í raun sláandi. Það hefur gengið illa hjá liðinu í vetur og heyrst hefur að það hafi ekki verið haldið nægilega vel utan um hlutina á bak við tjöldin hjá kvennaliði Aftureldingar í vetur - fyrir komandi tímabil. Ef það fer eins illa í sumar og spáin segir til um, þá hlýtur það að vekja fólk í kringum félagið. Það er nú ekki langt síðan Afturelding var með lið í Bestu deild kvenna.
Lykilmenn: Saga Líf Sigurðardóttir og Thelma Sól Óðinsdóttir
Þeirra öflugasti leikmaður, Hildur Karítas Gunnarsdóttir, er með slitið krossband og spilar líklega lítið sem ekkert í sumar. Þá eru mjög stórir og mikilvægir póstar farnir frá síðasta tímabili. Aðrir leikmenn þurfa að stíga upp og þar bera líklega hæst Saga Líf Sigurðardóttir og Thelma Sól Óðinsdóttir. Það eru tveir leikmenn sem eru talsverða reynslu úr efstu og næst efstu deild. Þær þurfa að eiga afskaplega gott sumar til þess að Afturelding eigi einhverja von á því að gera betur en spáin segir til um og halda sér uppi. Saga hefur verið besti leikmaður Aftureldingar á undirbúningstímabilinu og skorað fimm mörk í sjö leikjum og Thelma er mjög öflugur miðjumaður sem getur svo sannarlega gert góða hluti í þessari deild.
Gaman að fylgjast með: Hólmfríður Birna Hjaltested
Stelpa fædd 2010 sem spilaði alla leiki liðsins í Lengjubikarnum þrátt fyrir ungan aldur. Hún er afar efnileg og var valin í U16 landsliðið á dögunum. Hún á enn eftir að spila fyrsta alvöru keppnisleikinn í meistaraflokki en hann mun koma á næstu vikum. Leikmaður sem gæti fengið ágætis hlutverk í sumar.
Komnar:
Esther Júlía Gustavsdóttir frá Val (Á láni)
Guðrún Gyða Haralz frá Þrótti R.
Hanna Faith Victoriudóttir frá FH
Ísabella Eiríksd. Hjaltested frá ÍR
Karólína Dröfn Jónsdóttir frá Einherja
Ólöf Hildur Tómasdóttir frá Víkingi R.
Snædís Logadóttir frá FH
Tinna Guðjónsdóttir frá KH
Farnar:
Ariela Lewis í Keflavík
Elaina Carmen La Macchia í Fram
Katrín Rut Kvaran í Gróttu
Lilianna Marie Berg í Fram (Var á láni)
Sigrún Gunndís Harðardóttir í Smára
Snæfríður Eva Eiríksdóttir í Val (Var á láni)
Við lentum á mjög einmanalegum stað
Perry Maclachlan, þjálfari Aftureldingar, segir að spáin eigi líklega rétt á sér eftir erfitt undirbúningstímabil.
„Ef ég á að vera heiðarlegur þá held ég að spáin sé réttlætanleg eftir undirbúningstímabilið sem við höfum átt. Hún kemur mér ekki á óvart, en þetta er bara spá. Í fyrra var okkur var spáð 1. sæti - svo allt getur gerst," segir Perry.
„Við lentum á mjög einmanalegum stað frá september til mars, þar sem engin stjórn var fyrir ofan kvennaliðið. Það var þannig þangað til á síðastliðnum vikum, en ný stjórn hefur gert allt sem hún getur núna til að hjálpa. Spáin er ekki mikilvægur hluti tímabilsins, það er hvar við erum í lok tímabilsins sem skiptir mestu máli."
„Síðasta tímabil var kaflaskipt. Við vorum á mjög góðum stað þar til í júlí, en á tveimur vikum misstum við mikla lykilmenn í meiðsli út tímabilið, lykilmenn sem við gátum ekki leyst af hólmi. Leikmennirnir í hópnum sem tóku þátt stóðu sig frábærlega, það vantaði bara aðeins upp á til að klára leiki sem við kláruðum í byrjun tímabils. Í fimm leikjum af síðustu níu vorum við með forystu. Á fyrri hluta tímabilsins voru þetta leikir sem við gátum lokað. Það gerði útslagið á endanum."
Perry segir að undirbúningstímabilið hafi verið mjög erfitt.
„Erfitt, það hefur verið mjög erfitt. Leikmenn að læra nýjar stöður og þær hafa staðið sig mjög vel en þetta gerist ekki á einni nóttu."
„Við fengum mjög lítinn pening til að fá leikmenn í staðinn fyrir þá leikmenn sem við höfðum misst. Íslenski markaðurinn er líka erfiður þegar við erum að bjóða lægri laun en félögin sem við erum að keppa við. Okkur hefur tekist að endurbyggja hópinn á þann hátt að það veitir jafnvægi; mikil áhersla hefur verið lögð á að fá yngri leikmenn til að hugsa um framtíð félagsins."
„Stöðurnar sem við bentum fyrst á var markvörður og markaskorari. Það er mjög erfitt að fá þannig leikmenn á íslenska markaðnum. Þannig að við leituðum til útlanda. Við skoðuðum um 50 leikmenn til að finna þá sem voru með EU vegabréf. Við fengum bara grænt ljós á markvörðinn en að hafa ekki stjórn fyrir kvennaliðið á þeim tíma þýddi að það féll í gegn. Mín skoðun er sú að ef okkur hefði verið leyft að bæta við því sem við höfðum beðið um þá værum við á allt öðrum stað núna. Ekki það að útlendingar skipti öllu máli, en þú sérð hvaða áhrif þeir hafa. Sem betur fer tókst okkur að fá Esther frá Val sem mun gera mikið fyrir okkur."
„Núna hefðum við frekar verið til í að skoða svæði til að styrkja frekar en að skoða eitthvað sem okkur vantar nauðsynlega þegar tíu dagar eru í mót. En ég get ekki talað betur um starfsfólkið og leikmennina sem við höfum. Við erum með 13 leikmenn í aukaæfingum á viku, og er skuldbindingin frá starfsfólki og leikmönnum frábær."
„Nýja stjórnin hefur nokkrar frábærar hugmyndir til að hjálpa og hefur virkilega sett réttan fótinn fram. Það er frábært að sjá þau reyna að ýta hlutum í góðan farveg. Áhyggjur mínar eru að við hefðum átt að hafa áherslu á þessa hluti í október. Það er erfið staða að koma inn núna og gera þetta allt í einu, sérstaklega með takmarkað fjármagn."
Það eru miklar breytingar á milli tímabila hjá Aftureldinga.
„Já, það eru miklar breytingar frá síðasta tímabili og allt af mismunandi ástæðu, hvort sem það er út af meiðslum, skóla eða öðru. Þetta er fótbolti og því verða náttúrulega breytingar á milli tímabila," segir Perry.
„Ég er ánægður með þann hóp sem við erum með. Eins og ég nefndi áðan þá höfum við endurbyggt hann þannig að það sé jafnvægi. Okkur vantar enn mikilvæga leikmenn og við erum skoða möguleika. Hvort við náum að bæta þeim við hópinn svona seint er önnur spurning. Við vorum með möguleika og plön í janúar sem gengu ekki upp og það hefur áhrif núna."
Perry býst við því að deildin verði áhugaverð.
„Þetta verður áhugavert sumar, alveg klárlega. Mörg félög eru búin að fjárfesta og það verður áhugavert að sjá hvernig það fer. Akkúrat núna sé ég ekkert lið hlaupa í burtu með mótið. Ég held að þetta verði jafnt og spennandi. Við tökum einn leik í einu, gamla klisjan. Við erum með markmið innan liðsins og ef við náum þeim, þá verðum við mjög ánægð með sumarið."
Einhver skilaboð að lokum til stuðningsmanna?
„Margt og mikið, en það er fyrir annan tímapunkt. Þetta snýst um stelpurnar og þá vinnu sem þær leggja á sig til að spila fótbolta fyrir Aftureldingu. Við viljum bjóða alla velkomna á heimaleiki okkar í Mosó til að sýna leikmönnunum stuðning í gegnum sumarið," sagði Perry að lokum.
Fyrstu þrír leikir Aftureldingar
3. maí, Afturelding - KR (Malbikstöðin að Varmá)
8. maí, ÍA - Afturelding (Akraneshöllin)
16. maí, Afturelding - Keflavík (Malbikstöðin að Varmá)
Athugasemdir