„Ég get alveg viðurkennt það að ég var alveg stressuð fyrir leikinn. Við vissum að við gætum annað hvort klárað þetta í dag eða gert þetta aðeins erfiðara og þurft að klára tvo leiki í viðbót. En þetta var alltaf planið fyrir sumarið. Númer 1, 2 og 3 ætluðum við alltaf að komast upp og þetta er bara búið að vera geggjað sumar og þetta er geggjaður hópur. Við erum ekkert eðlilega sáttar,“ sagði Víkingurinn Emma Steinsen eftir að liðið tryggði sér sigur í Lengjudeildinni eftir 4-2 sigur á Fylki.
Það var mögnuð stemmning í Víkinni í kvöld og áhorfendamet slegið í deildarleik kvenna en 1001 áhorfandi mætti á leikinn. Emma þakkaði stuðningsfólkinu fyrir stuðninginn og vildi meina að umgjörðin og stuðningurinn ætti stóran þátt í góðu gengi Víkings.
„Ég er ekkert eðlilega sátt að vera hérna. Eftir að ég skrifaði undir hjá Víking þá fannst mér ég vera komin heim. Þetta er óraunverulegt. Stuðningurinn er búinn að vera geggjaður í sumar og við erum ótrúlega þakklátar. Þetta hjálpar gríðarlega mikið,“ sagði Emma meðal annars og viðurkenndi að hún hafði ekki séð þessa atburðarrás fyrir sér þegar hún ákvað að ganga til liðs við Víkinga.
Nánar er rætt við bakvörðinn öfluga í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir






















