
„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að allir leikir í Þjóðadeildinni eru mjög mikilvægir fyrir okkur. Bæði upp á stigasöfnun og framhaldið í A-deild. Líka upp á okkar vegferð sem lið, að ná góðri frammistöðu og bæta okkur," sagði Hlín Eiríksdóttir landsliðskona Íslands við Fótbolta.net fyrir æfingu liðsins í Cardiff í morgun.
Framundan er leikur gegn Wales í Þjóðadeild UEFA sem fer fram á föstudagskvöldið hér í Cardiff. Stig tryggir Íslandi umspil um að halda sæti sínu í deildinni.
„Auðvitað gerum við okkur allar grein fyrir því en leikurinn á móti Wales er að einhverju leiti extra mikilvægur upp á stigin í riðlinum. Við vitum alveg að það erum við og þær sem erum að berjast í 3. og 4. sæti riðilsins," sagði hún.
Hvernig heldurðu að leikurinn verði?
„Ég held að þetta verði mikill líkamlegur barningur. Þær eru mjög harðar af sér og fastar fyrir en við erum það líka. Síðast þegar við mættum þeim fannst mér leikurinn vera þannig. Mikið direct spil frá báðum og ég held þetta verði þannig, harka og við þurfum að mæta klárar."
Heldurðu að þetta verði nánast slagsmál?
„Ég segi það nú ekki en vonandi náum við að spila góðan fótbolta líka."
Athugasemdir