Arnar Gunnlaugsson var skiljanlega kátur að leikslokum eftir 6-0 sigur sinna manna gegn Eyjamönnum fyrr í dag. Víkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru komnir í 3-0 forystu eftir tæplega hálftíma og gengu svo endanlega frá leiknum síðustu tuttugu mínúturnar.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 6 - 0 ÍBV
„Það væri óskandi að það væri svona auðvelt að sjá eitthvað fyrir sér fyrir leik og það gengur upp eins og það gerðist fyrstu 30 mínúturnar, pressan þeirra var af mikilli ákefð og við gerðum bara svo virkilega vel að leysa hana afþví við fundum alltaf rétta manninn.''
Matthías Vilhjálmsson var stórkostlegur í dag og hefur ennþá ekki tapað leik á árinu á Íslandi, er hann búinn að læknast af tapsjúkdómnum fræga sem Arnar greindi hann með?
„Við Matti töluðum um það fyrr í vetur þegar það var að ganga ekkert of vel hjá honum, ekki fyrir ''lack of effort'' (vinnuframlag) heldur afþví hann var að reyna of mikið, hlaupa of mikið eins og hann gerði með FH, hann var að vinna fyrir of marga í liðinu en eftir að hann skildi stöðuna sína og hvað hann á að gera þá er hann búinn að vera stórkostlegur fyrir okkur í sumar.''
„Matti var ekki með á móti Val svo hann er ekki búinn að tapa leik á Íslandi, hann er bara winner, algjör serial winner og við vorum svolítið að grínast með það í vetur, Aron Elís lenti í því sama þegar hann byrjaði að æfa hjá okkur að hann vann ekki leik á æfingu.''
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan en þar fer Arnar nánar út í leikinn, leik síns liðs og margt fleira.