Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   þri 14. maí 2024 20:06
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Þór/KA með fjórða sigurinn í röð - Sjö mörk í Garðabæ
Fanndís Friðriksdóttir skorar í kvöld.
Fanndís Friðriksdóttir skorar í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Stjarnan
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var mikið fjör í Bestu deild kvenna í kvöld þar sem Þór/KA tók á móti Keflavík á Akureyri á sama tíma og Stjarnan fékk FH í heimsókn í Garðabæinn.

Lestu um leikinn: Þór/KA 4 -  0 Keflavík

Akureyringar rúlluðu yfir Keflavík í Boganum en staðan var aðeins 1-0 eftir bragðdaufan fyrri hálfleik, þar sem Sandra María Jessen skoraði eftir fyrirgjöf frá Huldu Ósk Jónsdóttur. Þetta var hennar 98. mark í efstu deild.

Þór/KA var talsvert sterkari aðilinn í síðari hálfleiknum þar sem Iðunn Rán Gunnarsdóttir komst nálægt því að skora áður en Ísfold Marý Sigrtryggsdóttir tvöfaldaði forystuna.

Margrét Árnadóttir setti svo þriðja markið skömmu síðar áður en Karen María Sigurgeirsdóttir gerði endanlega út um þessa viðureign með fjórða marki leiksins á 71. mínútu.

Þór/KA komst nálægt því að gera fimmta markið en það hafðist ekki og urðu lokatölur því 4-0.

Þór/KA er með 12 stig og jafnar Breiðablik, sem á leik til góða, á stigum í öðru sæti deildarinnar með þessum sigri. Keflavík situr sem fastast á botninum án stiga eftir fimm umferðir.

Þór/KA 4 - 0 Keflavík
1-0 Sandra María Jessen ('21)
2-0 Ísfold Marý Sigtryggsdóttir ('58)
3-0 Margrét Árnadóttir ('60)
4-0 Karen María Sigurgeirsdóttir ('71)

Lestu um leikinn: Stjarnan 4 - 3 FH

Í Garðabænum var mikið fjör í byrjun þar sem fimm mörk litu dagsins ljós á fyrstu 16 mínútum leiksins, sem er án nokkurs vafa nýtt met í efstu deild íslenska boltans.

Esther Rós Arnarsdóttir og Gyða Kristín Gunnarsdóttir komu Stjörnunni í tveggja marka forystu á fyrstu tíu mínútum leiksins, áður en Snædís María Jörundsdóttir minnkaði muninn.

Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir og Caitlin Meghani Cosme skoruðu sitthvort markið beint í kjölfarið og var staðan orðin 4-1 á sextándu mínútu leiksins.

FH reyndi að svara fyrir sig og átti skot í stöng, en staðan hélst 4-1 til leikhlés og byrjuðu heimakonur í Stjörnunni á að eiga skot í slá í upphafi síðari hálfleiks.

Bæði lið fengu færi en boltinn rataði ekki í netið fyrr en á 74. mínútu, þegar FH minnkaði muninn niður í tvö mörk eftir að hafa beitt góðri pressu. Elísa Lana Sigurjónsdóttir skoraði þá með frábæru skoti utan teigs sem fór undir samskeytin.

FH reyndi að minnka muninn enn frekar og tókst það í uppbótartímanum, þegar Breukelen Lachelle Woodard gerði frábærlega að skalla boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Thelmu Karen Pálmadóttur.

Það var þó ekki nægur tími fyrir jöfnunarmark og niðurstaðan 4-3 sigur Stjörnunnar.

Stjarnan og FH eiga bæði 6 stig eftir 5 fyrstu umferðir tímabilsins.

Stjarnan 4 - 3 FH
1-0 Esther Rós Arnarsdóttir ('6)
2-0 Gyða Kristín Gunnarsdóttir ('10)
2-1 Snædís María Jörundsdóttir ('12)
3-1 Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir ('13)
4-1 Caitlin Meghani Cosme ('16)
4-2 Elísa Lana Sigurjónsdóttir ('74)
4-3 Breukelen Lachelle Woodard ('90)
Athugasemdir
banner
banner
banner