„Við erum bara fullir tilhlökkunar að mæta Frökkunum og það verður gaman að slást við þá,“ sagði Sverrir Ingi Ingason, fyrirliði íslenska U21 landsliðsins, fyrir leikinn gegn Frakklandi sem fram fer á Laugardalsvelli á morgun klukkan 18:30.
,,Þeir eru náttúrulega „favorites“ til að vinna þennan riðil og það var alveg þannig áður en þetta hófst, en við óttumst engan andstæðing eins og við höfum verið að spila.“
„Við förum bara inn í þennan leik til þess að vinna hann og það er það sem skiptir máli.“
Þrátt fyrir að Ísland hafi unnið alla fjóra leiki sína til þessa býst Sverrir Ingi ekki við því að Frakkar mæti hræddir á Laugardalsvöllinn, enda stórþjóð.
„Ég stórefa að þeir verði smeykir að koma hingað, en ef þeir ætla að koma með eitthvað kæruleysi hingað, þá munu þeir lenda í erfiðleikum. Við erum í góðu formi eins og staðan er núna þannig að við óttumst þá ekkert,“ sagði Sverrir Ingi.
„Kannski halda þeir að þeir séu að fara til Armeníu og Íslands eins og þetta sé eitthvað „walk in the park“, en við sjáum til þess að það verði ekki þannig.“
Athugasemdir























