„Auðvitað svekkjandi að tapa," sagði Selma Sól Magnúsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins eftir 2-1 tap gegn Finnlandi í vináttuleik á Laugardalsvelli í kvöld.
„Klárlega eitthvað sem við getum tekið með okkur og lært af í dag þannig að við þurfum held ég bara að skoða þennan leik og læra af honum."
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 2 Finnland
Selmu fannst leikurinn vera upp og niður og taldi heildarframmistöðuna jákvæða þó það sé klárlega eitthvað sem hægt er að bæta.
„Ég held að það sé bara klárlega eitthvað sem við getum bætt og tekið með okkur í pokann. Jákvætt að við sköpum okkur færi til dæmis og já ég held að það sé yfir heild kannski bara jákvætt."
Ísland spilaði í þriggja miðvarða kerfi í fyrri hálfleik, henni fannst það ganga ágætlega þegar leið á fyrri hálfleikinn.
„Það tók okkur smá tíma að komast inn í það og svo svona þegar við vorum búnar að finna aðeins taktinn þá gekk það frekar vel, sérstaklega í lok fyrri hálfleiks."
Það voru 6281 áhorfendur á leiknum og þar á meðal voru keppendur á Símamótinu sem héldu uppi stemningunni og sungu allan leikinn.
„Það er auðvitað bara geggjað að þær komi allar og gaman að sjá fulla stúku þarna hinumegin af þessum stelpum og bara mjög jákvætt," sagði Selma Sól að lokum.
Nánar er rætt við Selmu Sól í spilaranum hér fyrir ofan.























