Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   þri 19. júlí 2016 15:00
Arnar Daði Arnarsson
Heimir Guðjóns: Ætlum ekki að sitja til baka
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steven Lennon skoraði mikilvægt mark í fyrri leiknum
Steven Lennon skoraði mikilvægt mark í fyrri leiknum
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH mætir írska liðinu, Dundalk í seinni leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar annað kvöld. Fyrri leikurinn endaði með jafntefli ytra, 1-1 þar sem Írarnir komust yfir en Steven Lennon jafnaði fyrir FH-inga í seinni hálfleik.

Heimir Guðjónsson þjálfari FH telur möguleika FH góða á að komast áfram.

Verða að vera beittari fram á við
„Við náðum hagstæðum úrslitum úti, 1-1 jafntefli og skoruðum mikilvægt mark. Sem segir okkur að við þurfum kannski ekki endilega að breyta miklu í okkar leikskipulagi fyrir leikinn á morgun. Þó svo að við munum vera aðeins sókndjarfari en við vorum í fyrri leiknum," sagði Heimir sem segir Dundalk hafa verið sterkari aðilinn í fyrri leiknum.

„Þeir voru þó ekki að skapa sér mörg opin færi og varnarleikurinn hélt á löngum köflum."

„Á heimavelli þurfum við að vera beittari fram á við og getað haldið boltanum aðeins betur innan liðsins," sagði Heimir sem segir FH liðið ekki ætla að sitja til baka í leiknum.

„Ef við ætlum að gera það í þessum leik þá mun það ekki enda vel. Við þurfum að koma framar á völlinn og setja þá undir pressu á ákveðnum stöðum á vellinum ef við ætlum að ná hagstæðum úrslitum. Við verðum að taka smá frumkvæði í leiknum."

Heilt yfir gott lið og vel skipulagt
Heimir segir að vinstri helmingurinn hjá þeim sé öflugur.

„Vinstri helmingurinn hjá þeim er mjög öflugur. Daryl Horgan og Dane Massey vinstri bakvörðurinn þeirra eru öflugir upp vinstri vænginn og síðan eru þeir með David McMillan frammi. Hann hefur skorað 12 mörk í 17 leikjum í deildinni og skoraði í fyrri leiknum gegn okkur. Á miðjunni hjá þeim er síðan Stephen O'Donnell að stjórna spilinu hjá þeim. Annars er þetta heilt yfir mjög gott fótboltalið og vel skipulagt," sagði Heimir sem segir stöðuna á hópnum hjá FH vera góða fyrir leikinn fyrir utan það að Atli Guðnason sé frá næstu vikurnar vegna meiðsla sem hann varð fyrir um helgina í leik gegn ÍBV.

„Við höfum mikla reynslu á Evrópukeppninni og í gegnum árin höfum við verið að bæta okkur með meiri reynslu. Við höfum þá séð það að möguleikarnir eru til staðar," sagði Heimir sem var í lokin beðinn um að styrkleika Dundalk miðað við íslensku deildina.

„Þeir væru pottþétt í efstu þremur sætunum í Pepsi-deildinni. Þetta er atvinnumannafélag," sagði þjálfari FH, Heimir Guðjónsson að lokum.

Leikurinn klukkan 19:15 annað kvöld, á Kaplakrikavellinum.
Athugasemdir
banner
banner