„Ég varð strax spenntur fyrir þessu," segir Gunnar Heiðar Þorvaldsson, nýr þjálfari Njarðvíkur, í samtali við Fótbolta.net í dag.
Gunnar Heiðar var í dag ráðinn til að taka liði Njarðvíkur af Arnari Hallssyni sem var rekinn síðastliðið sunnudagskvöld.
Gunnar átti glæsilegan feril sem leikmaður í fjölda ára bæði hérlendis og erlendis. Gunnar Heiðar er frá Vestmannaeyjum þar sem hann lék með ÍBV og KFS en auk þess spilaði hann með Halmstads BK, Hannover 96, Valerenga, Esbjerg FB, Reading, Fredrikstad FK, IFK Norrköping, Konyaspor og BK Hacken.
Gunnar Heiðar lék 24 A landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim fimm mörk. Gunnar sem er 41 árs kom KFS upp í 3. deild 2020 og stýrði svo Vestra í fyrra. Undir hans stjórn endaði Vestri í tíunda sæti Lengjudeildarinnar.
Hann tekur nú við Njarðvík, sem er í fallsæti í Lengjudeildinni. „Þetta er félag sem hefur mikinn metnað fyrir því sem þeir eru að gera. Þeir eru með fína aðstöðu og fínan leikmannahóp. Þetta var strax mjög spennandi kostur."
„Ég er að flytja frá Vestmannaeyjum á höfuðborgarsvæðið. Þetta flýtir flutningum hjá mér um svona mánuð. Það eru nokkrir þættir sem snúa að hugmyndinni að flytja á höfuðborgarsvæðið og einn af þessum þáttum er að fara almennilega í þjálfun, gefa því almennilega séns. Mér finnst ég vera með mikið til þess að koma með inn í íslenskan fótbolta. Ég hef haft gaman að þessum verkefnum en núna langar mér að gera þetta af alvöru," sagði Gunnar Heiðar.
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan þar sem hann ræðir meira um verkefnið með Njarðvík.
Athugasemdir






















