
„Þetta er svekkjandi fyrst og fremst," sagði Andri Lucas Guðjohnsen eftir grátlegt tap Íslands gegn Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM í kvöld.
Lestu um leikinn: Úkraína 2 - 1 Ísland
„Mér fannst þetta mjög flottur fyrri hálfleikur. Við komumst yfir og erum í frábærri stöðu en byrjum seinni hálfleikinn passívir og erum ekki að koma okkur í nógu góðar stöður og þeir refsa okkur."
Sérð þú eitthvað sérstakt í mörkunum sem þeir skora?
„Þeir voru að ógna og ógna nálægt okkar vítateig. Þegar þeir geta verið svona mikinn tíma á boltanum nálægt okkar vítateig koma mörk því miður," sagði Andri Lucas.
Menn eru ekki dottnir af baki þrátt fyrir gríðarlega svekkjandi tap.
„Við lærum mikið af þessu, kannski sjáum við það ekki núna. Auðvitað er maður svekktur, þetta er ekki góð tilfinning eins og staðan er núna. Það eru góðir hlutir sem maður getur tekið út úr þessum leik. Við komumst yfir í fyrri og vorum eiginlega hættulegri þannig séð. Við tökum þetta með okkur og vonandi komumst við á stórmót eins fljótt og hægt er," sagði Andri Lucas.