
Nacho Heras átti góðan leik í vörn Keflavíkur þegar liðið bar 4-0 sigurorð af HK í úrslitaleik umspils Lengjudeildarinnar á Laugardalsvelli í dag. Sigurinn fleytir Keflavík á ný í Bestu deildina eftir tveggja ára fjarveru. Nacho spjallaði við Fótbolta.net að leik loknum.
Lestu um leikinn: Keflavík 4 - 0 HK
„Þetta er stórkostlegt í hreinskilni sagt. Ég get ekki sagt að ég hafi átt von á þessu í upphafi leiktíðar. Ég átti í erfiðleikum í lok tímabils í fyrra og í upphafi núna og hugsaði jafnvel að ég ætti bara að gefast upp og hætta að spila fótbolta.En þetta er sérstakt fyrir mig, ég gat ekki tekið þátt hér í fyrra en í dag er ég stoltur af liðinu og mjög hamingjusamur. “
Komandi inn í þetta umspil núlstillti lið Keflavíkur sig og nýtt mót í raun hófst hjá þeim. Árangurinn talar sínu máli og sæti í Bestu deildinni tryggt.
„Við vissum þegar við tryggðum okkur inn í þetta umspil að við værum hættulegir. Við lögðum allt í sölurnar og sigurinn á Njarðvík síðast gaf okkur enn frekari orku fyrir þennan leik.“
Að loknu tímabili fara eðlilegar vangaveltur um framtíð manna af stað. Tekur Nacho slaginn með Keflavík í Bestu deildinni að ári?
„Já það er staðfest, staðfest.“
Sagði Nacho en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir