„Mér fannst vera karakter á bakvið þessi þrjú stig í dag. Við þurftum að grafa djúpt í seinni hálfleik og þá sérstaklega síðasta korterið til að landa þessum þremur stigum en mér fannst við nýta okkar augnablik vel í dag“ Sagði Ian Jeffs þjálfari Þróttar eftir 2-1 sigur hans manna á Grindavík suður með sjó í kvöld aðspurður afhverju Þróttur hefði unnið leikinn.
Lestu um leikinn: Grindavík 1 - 2 Þróttur R.
Varnarleikur Þróttar var til fyrirmyndar í leiknum í kvöld og voru afgerandi færi heimamanna í Grindavík teljandi á fingrum annarar handar að leik loknum.
„Þeir voru aldrei að skapa nein dauðafæri í leiknum. Það kom pressa á okkur sérstaklega síðasta korterið þar sem þeir fengu hornspynur og lágu svolítið á okkur.“
Sigurinn fleytir Þrótti upp í sjötta sæti deildarinnar þar sem liðið situr með 13 stig og nálgast umspilssæti. Er stigasöfnun liðsins á pari við það sem Ian bjóst við eða jafnvel betri?
„Við erum með okkar markmið innan hópsins sem við vildum ná úr fyrri helming mótsins og við erum á góðri leið með að ná því. Heilt yfir hefur verið stígandi hjá okkur og er ég mjög ánægður með spilamennsku okkar og hvernig liðið er að þróast. En það er líka fullt sem við getum bætt og gert betur.“
Sagði Ian en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir























