Þór/KA vann sterkan 3-2 sigur á Keflavík í Bestu deild kvenna í kvöld. Sandra María Jessen átti frábæran leik í liði Þór/KA en hún spjallaði við Fótbolta.net eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór/KA 3 - 2 Keflavík
„Þetta var mjög kærkominn sigur, mjög gott fyrir sjálfstraustið og mjög mikilvægt fyrir liðið, Það hefur verið erfiður fasi undanfarnir leikir, ekki beint hepnin með okkur, svolítið stöngin út," sagði Sandra en Þór/KA hafði tapað síðustu þremur leikjunum í deildinni.
„Þetta var rosalega kaflaskipt. Heilt yfir þá áttum við sigurinn skilið en það var ekki sjálfsagt að taka þrjú stig á móti Keflavík, þær eru með hörku lið og gerðu hrikalega vel í dag."
Hver var munurinn á leik liðsins í dag miðað við síðustu leiki?
„Held það hafi verið þessi herslumunur. Fara í sjötta gír, ekki spara sig. Fundum lausnir á veikleikum þeirra og nýttum okkur það. Það myndaðist svæði á milli lína og nýttum það og fengum þrjú mörk og þrjú stig,"
Næsti leikur liðsins er gegn Stjörnunni á útivelli.
„Það er hörku leikur framundan, það er bara að endurnæra sig og fullan fókus á þann leik," sagði Sandra.
























