Emil Hallfreðsson, leikmaður íslenska landsliðsins, var svekktur í leikslok eftir 1-0 tapið gegn Finnlandi í kvöld. Liðið náði sér aldrei í gang.
„Þetta var klárlega ekki nógu góður leikur enda töpuðum við, það vantaði einhvern kraft í okkur í kvöld og ég hef engar útskýringar á af hverju það er en því miður fór sem fór og við verðum að hugsa um leikinn á móti Úkraínu," sagði Emil.
Eina mark leiksins kom úr aukaspyrnu í byrjun leiks en það var draumamark hjá Finnum.
„Þetta var flott mark hjá honum, setti hann bara í skeytin. Eftir það erum við að reyna að ná inn marki allan leikinn og fengum færi, þeir líka en þetta var barátta eftir það."
„Við höfum allir átt betri daga og við þurfum að laga þetta fyrir næsta leik."
Næsti leikur er gegn Úkraínu á Laugardalsvellinum en íslenska liðið fylgist nú með úrslitum úr öðrum leikjum í riðlinum.
„Eru ekki leikir á eftir? Sjáum hvernig riðillinn lítur út eftir þá leiki sem eiga eftir að spilast. Við verðum að ná sigri á heimavelli á móti Úkraínu og við erum ákveðnir í að reyna að ná því," sagði hann í lokin.
Athugasemdir























