„Liðið spilaði heilt yfir mjög vel, liðsheildin er bara geggjuð og ég er mjög ánægður að við náðum að koma inn stigi í lokin," sagði Sigurbergur Áki Jörundsson sem kom inn í byrjunarlið U19 landsliðsins gegn Noregi á Evrópumótinu í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland U19 1 - 1 Noregur U19
Sigurbergur Áki átti flotta innkomu í leiknum. Var það stressandi að byrja leik á Evrópumótinu?
„Kannski svolítið til að byrja með, en um leið og leikurinn byrjar þá fer það strax. Svo þarftu að njóta og spila þinn fótbolta."
Noregur tók forystuna gegn gangi leiksins með marki úr vítaspyrnu en íslenska liðið gafst aldrei upp og tókst að jafna metin þegar Eggert Aron Guðmundsson skoraði stórglæsilegt mark. Sigurbergur Áki og Eggert eru liðsfélagar í Stjörnunni.
„Hann er litli Messi og líka Maradona," sagði Sigurbergur léttur. „Hann er svo ótrúlega góður í bolta. Þetta var ótrúlega ljúft, það var svo gaman að sjá hann lenda inni og eftir þetta hlaup hjá honum var þetta enn betra."
Ísland þarf að vinna Grikkland í næsta leik og treysta á önnur úrslit til að komast áfram í riðlinum. „Við erum að fara inn í þennan leik til að pakka þessu saman, það er bara svoleiðis. Við erum að fara að gera allt til að vinna."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir





















