Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með að komast í undanúrslit Lengjubikarsins eftir sigur á Íslandmeisturum FH í Reykjaneshöllinni í kvöld.
Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og var því gripið til vítaspyrnukeppni.
„Alltaf gaman að vinna vítakeppnir. Það er gaman að taka þátt í þeim. Leikurinn var eins og maður bjóst við. Þeir voru meira með boltann og við náðum að loka svæðum. Við fengum vissulega góð færi og hefðum getað skorað," segir Þorvaldur.
Keflavík féll úr Pepsi deildinni á síðustu leiktíð og Þorvaldur tók við liðinu síðastliðið haust. Hann segir stefnuna vera setta á að fara upp.
„Það er búið að ganga ágætlega en við þurfum að halda okkur ferskum og heilum og þá erum við þokkalegt lið. Það er skrýtið fyrir lið að falla úr úrvalsdeildinni og segjast ekki ætla upp. Við viljum fara upp."
Hann útilokar ekki að bæta við leikmönnum fyrir mót en Keflavík mætir fyrrum félagi Þorvaldar, HK, í fyrstu umferð 1.deildarinnar þann 6.maí næstkomandi.
„Það er eitthvað sem við skoðum. Við erum alltaf að leita, allan ársins hring. Það er bara spurning hvort maður finni eitthvað," segir Þorvaldur.
Athugasemdir