„Já ég er mjög svekktur, á fyrstu 15 mínútunum þá gefum við þeim leikinn. En eftir það vorum við betra liðið á öllum sviðum leiksins. “ Voru viðbrögð Dean Martin þjálfara Selfoss eftir 2-1 tap gegn liði Vestra á Ísafirði fyrr í kvöld í leik sem Selfyssingum fannst þeir eiga að taka meira úr.
Lestu um leikinn: Vestri 2 - 1 Selfoss
Eftir skelfilega byrjun þar sem Vestri komst í 2-0 snemma leiks náðu Selfyssingar vopnum sínum og minnkuðu munin með marki Gary Martin. Gestirnir höfðu yfirhöndina á vellinum eftir það en inn vildi boltinn ekki aftur.
„Við náum ekki að jafna en fáum nóg af færum til þess og hreinlega til þess að vinna leikinn. Mér líður eins og við hefðum átt að vinna leikinn miðað við færin sem við fengum í dag og verð að hrósa strákunum fyrir vinnusemina og hlaupagetuna sem þeir sýndu á móti mjög góðu liði Vestra.“
En þegar öllu er á botninn hvolft var ósigur niðurstaðan og það eina sem vantaði uppá var þessi víðfrægi herslumunur.
„Það vantaði bara síðustu snertinguna í rauninni. Við erum því rosalega svekktir en þetta er leikur sem við getum byggt á og þó það hljómi kjánalega eftir tap þá gefur það mér boost að sjá hvað leikmenn eru tilbúnir að leggja á sig og hvað þeir ná að skapa gegn góðu liði. “
Sagði Dean en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir
























