Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
   fim 10. september 2020 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 3. sæti
Manchester United
Manchester United er spáð þriðja sæti.
Manchester United er spáð þriðja sæti.
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær hefur stýrt Man Utd frá desember 2018.
Ole Gunnar Solskjær hefur stýrt Man Utd frá desember 2018.
Mynd: Getty Images
Paul Pogba.
Paul Pogba.
Mynd: Getty Images
Bruno Fernandes kom til Man Utd frá Sporting Lissabon í janúar síðastliðnum.
Bruno Fernandes kom til Man Utd frá Sporting Lissabon í janúar síðastliðnum.
Mynd: Getty Images
Mason Greenwood.
Mason Greenwood.
Mynd: Getty Images
Solskjær, Martial og Rashford.
Solskjær, Martial og Rashford.
Mynd: Getty Images
Eftir undirbúningstímabil í styttri kantinum mun enska úrvalsdeildin hefjast aftur þann 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 3. sæti er Manchester United.

Um liðið: Síðasta tímabil var þriðja tímabilið í röð þar sem enginn titill vinnst. Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær, sem spilaði með Man Utd 1996 til 2007, er búinn að vera að byggja liðið upp og virðist vera á réttri leið. Það eru sjö ár síðan Manchester United varð síðast Englandsmeistari. Fyrir félag þetta stórt er það alltof langur tími. Getur Man Utd blandað sér í baráttuna um titilinn?

Stjórinn: Solskjær tók við Man Utd af Jose Mourinho í desember 2018. Hann hefur gert fína hluti og virðist vera með skýra stefnu. Hann hefur verið að yngja liðið mikið upp og það er lykilatriði hjá honum að menn séu með rétt hugarfar. Hann stýrði United í þriðja sæti eftir brösugt gengi framan af og kom liðinu í undanúrslit í deildabikar, FA-bikar og Evrópudeildinni. Núna er krafa á málm.

Staða á síðasta tímabili: 3. sæti.

Styrkleikar: Vítaspyrnur. Það er líklega það fyrsta sem flestir stuðningsmenn Liverpool og Man City myndu segja. United fékk rosalega mikið af vítaspyrnum á síðustu leiktíð og Bruno Fernandes er frábær vítaskytta. Þrátt fyrir að hafa tapað þrisvar í undanúrslitum á síðustu leiktíð var fullt af jákvæðum punktum, sérstaklega eftir áramót. Ole Gunnar Solskjær er á leið inn í sitt þriðja tímabil og ætti að vera búinn að læra helling á tíma sínum hjá félaginu hingað til. Anthony Martial og Marcus Rashford stigu báðir upp á síðustu leiktíð og skoruðu saman 45 mörk.

Veikleikar: Það hefur í rauninni bara verið keyptur einn leikmaður og breiddin er ekki sú besta. Það er ekki kjörstaða að vera að setja Andreas Pereira og Jesse Lingard inn á í leiki sem þú þarft að vinna. Það hefði verið ágætt fyrir United að styrkja sig í miðvarðarstöðunni þar sem Victor Lindelöf og Harry Maguire voru ekki alltaf sannfærandi á síðustu leiktíð. Sumarið fyllir stuðningsmenn Man Utd ekki bjartsýni. Harry Maguire, fyrirliði liðsins, lenti í vandræðum utan vallar sem og vonarstjarnan Mason Greenwood, og á félagaskiptamarkaðnum hefur lítið verið að frétta.

Talan: 14. Liðið tapaði ekki í síðustu 14 deildarleikjum á síðustu leiktíð.

Lykilmaður: Paul Pogba
Bruno Fernandes kom ótrúlega öflugur inn í liðið seinni hluta síðasta tímabils, en besti leikmaður Manchester United er Paul Pogba. Franski miðjumaðurinn var mikið meiddur á síðasta tímabili og það er vonandi að hann haldist heill á þessu tímabili, og vonandi fyrir United að hann sé búinn að jafna sig á kórónuveirunni sem hann fékk fyrir nokkrum vikum. Í fyrsta sinn nánast frá því hann kom til félagsins virðist Pogba vera ánægður hjá Manchester United og engar sögusagnir um að hann sé á leið annað.

Fylgstu með: Mason Greenwood
Skaust fram á sjónvarsviðið á síðustu leiktíð með flottri frammistöðu. Undir lok tímabilsins hafði hann unnið sér sæti í byrjunarliðinu þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára. Hann var svo valinn í enska landsliðið sem mætti Íslandi í þessum mánuði og lék sinn fyrsta landsleik á Laugardalsvelli. Eftir það lenti hann hins vegar í vandræðum þegar það komst í fréttirnar að hann og Phil Foden, leikmaður Man City, hefðu smyglað íslenskum stelpum inn á liðshótel Englands. Hann braut sóttvarnarreglur og var sendur heim til Englands. Það verður spennandi að sjá hvort þetta allt saman hafi áhrif á hann, eða hvort hann taki skref fram á við frá síðustu leiktíð.

Tómas Þór Þórðarson - ritstjóri enska boltans hjá Símanum:
„Sumarfríið stutta var sagan af Jadon Sancho sem kom svo ekki. Glugginn er þó opinn til 5. október þannig stuðningsmenn Man. Utd mega ekki útiloka neitt strax. Ole Gunnar var með United-liðið á svakalegu skriði þó svo þreyta hafi verið farin að segja til sín undir lokin en það sýndi líka að þó breiddin sé mikil í hópnum er breiddin af hágæða leikmönnum ekki næg. Það vantar enn þá mann í gæðaflokki Sancho í framlínuna til að styðja við þríeykið þar og svo vantar sárlega miðvörð við hliðina á Maguire. Donny van der Beek kemur vafalítið með gæði inn á miðjuna en hvort hann var það sem að United vantaði akkurat núna má setja spurningamerki við.”

Komnir:
Odion Ighalo frá Shanghai Shenhua - Á láni
Donny van de Beek frá Ajax - 34,7 milljónir punda

Farnir:
Cameron Borthwick-Jackson til Oldham - Frítt
Alexis Sanchez til Inter - Frítt
Angel Gomes til Lille - Frítt
Tahith Chong til Werder Bremen - Á láni
Joel Pereira til Huddersfield - Á láni
Dylan Levitt til Charlton - Á láni

Fyrstu leikir: Crystal Palace (H), Brighton (Ú), Tottenham (H).

Þau sem spáðu: Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynja Dögg Sigurpálsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Ester Ósk Árnadóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, Sverrir Örn Einarsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. Man Utd, 212 stig
4. Chelsea, 210 stig
5. Arsenal, 192 stig
6. Tottenham, 182 stig
7. Leicester, 161 stig
8. Wolves, 160 stig
9. Everton, 146 stig
10. Southampton, 113 stig
11. Sheffield United, 101 stig
12. Burnley, 99 stig
13. Leeds, 95 stig
14. West Ham, 93 stig
15. Crystal Palace, 80 stig
16. Newcastle, 76 stig
17. Brighton, 49 stig
18. Aston Villa, 39 stig
19. Fulham, 30 stig
20. West Brom, 20 stig

Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner