
„Þetta var smá bras í dag. Við vorum að spila á móti mjög góðu Víkingsliði í dag og kannski svona eftir á að hyggja höfðum við ekki alveg nógu mikla trú á verkefninu því það er ekki langt síðan við kepptum við þær síðast. En þetta var mjög erfitt í dag.“ sagði Kristrún Lilja Daðadóttir, þjálfari Augnabliks, eftir 6-0 tap gegn Víkingum í 2. umferð Lengjudeildarinnar.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 6 - 0 Augnablik
Hvernig meturu þennan leik miðað við síðasta leik milli þessara liða?
„Kannski voru þær bara búnar að læra meira inn á okkar taktík en við þeirra. Við áttum fá svör í kvöld. Við verðum bara að læra af þessu.“
Hversu mikilvægt var þetta þriðja mark Víkinga?
„Þriðja markið í flestum leikjum er alltaf mjög mikilvægt. Erum við að fara að koma okkur 2-1 inn í leikinn eða erum við að fara að fá á okkur 3-0 og þar með klára leikinn? Við hefðum viljað halda þetta lengur út í seinni hálfleiknum en eftir þetta þriðja og fjórða mark var þetta bara brekka þar sem eftir er.“
Var það eitthvað sem þú varst sátt með í dag?
„Ég veit það ekki. Það kemur ekkert upp í hausinn svona beint eftir leikinn. Ég á eftir að horfa á hann aftur og þá fæ ég fleiri svör en maður er bara niðurdregin eftir þetta, ég viðurkenni það. En við bara mættum á æfingu á morgun og gírum okkur í næsta verkefni sem leggst mjög vel í okkur allar. Við erum mjög spenntar að fá að spila okkar fyrsta heimaleik á tímabilinu, loksins.“ sagði Kristrún eftir leik kvöldsins.
Viðtalið við Kristrúnu má finna í spilaranum hér að ofan.