Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   mið 24. mars 2021 13:09
Elvar Geir Magnússon
Jón Dagur: Markmiðið að komast upp úr riðlinum
Icelandair
Jón Dagur Þorsteinsson.
Jón Dagur Þorsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá æfingu U21 landsliðsins í Ungverjalandi.
Frá æfingu U21 landsliðsins í Ungverjalandi.
Mynd: Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jón Dagur Þorsteinsson, fyrirliði U21 landsliðsins, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í Ungverjalandi í dag. Á morgun klukkan 17:00 er komið að fyrsta leik Íslands í riðlakeppni EM.

Leikið verður gegn Rússlandi en Danmörk og Frakkland eru einnig í riðlinum. Tvö efstu liðin tryggja sér sæti í útsláttarkeppni.

„Auðvitað förum við með það markmið að komast upp úr riðlinum. Við viljum njóta þess að spila fótbolta líka en auðvitað er markmiðið að komast upp úr riðlinum," segir Jón Dagur.

Hvernig tilfinning verður það fyrir Jón Dag að leiða Ísland út á völlinn í þessu móti.

„Það verður mjög gaman. Ég er stoltur. Þetta verður hrikalega skemmtilegt og krefjandi verkefni. Ég er gríðarlega stoltur af því að vera fyrirliði. Ég hef þekkt þennan hóp mjög lengi og við erum nánir og það er flott liðsheild í hópnum. Mitt hlutverk er að menn séu á tánum og gera þetta vel en á sama tíma njóta þess að vera hérna."

„Það eru nokkur nöfn sem eru búin að stíga upp og taka miklum framförum. Þegar við byrjuðum voru Andri Fannar og Ísak 14 ára eða eitthvað. Þeir eru búnir að stíga upp og aðrir leikmenn líka. Staðan á hópnum er góð."

Þekkir hann til leikmannana í rússneska liðinu?

„Maður þekkir einhvern nöfn en maður er ekki að horfa á rússnesku deildina daglega. Maður hefur séð meira af þessum leikmönnum í Evrópukeppnunum,"

Er mesti möguleiki ykkar í riðlinum gegn þessu rússneska liðið?

„Við eigum gríðarlegan séns í öllum þessum leikjum. Frakkarnir eru sigurstranglegastir í riðlinum en við förum í alla leiki með sigurhugarfar og að ná i öll stig sem eru í boði. Við byrjum á því gegn Rússum á morgun," segir Jón Dagur.

Finna þeir fyrir miklum viðbrögðum að heiman?

„Auðvitað er þetta stærsta sviðið. Við áttum flotta undankeppni og þegar leið á hana voru meiri viðbrögð við öllu. Maður vill komast sem lengst og því fylgir meiri athygli."
Athugasemdir
banner
banner
banner