Elfar Árni Aðalsteinsson kom KA á bragðið í mögnuðum sigri gegn Stjörnunni í dag. Fótbolti.net ræddi við hann eftir leikinn.
Lestu um leikinn: KA 2 - 1 Stjarnan
„Þetta er þvílíkur léttir, þetta er ekki alveg búið að ganga með okkur í síðustu leikjum í deildinni. Svo var þetta farið að líta illa út þegar við vorum orðnir manni færri og þeir fengu víti en við sýndum karakter og Ásgeir náði inn geggjuðu marki til að klára leikinn," sagði Elfar.
Þessi þrjú stig halda KA mönnum á lífi í baráttunni um sjötta sætið en stigið hefði svo gott sem farið með þann möguleika.
„Það hefði ekki gert mikið fyrir okkur og það var frábært að fá þessi þrjú stig upp á framhaldið og reyna að klára fyrir skiptingu á fullu."
Elfar skoraði laglegt mark þegar hann vippaði yfir Árna Snæ í marki Stjörnumanna.
„Það kom langur bolti innfyrir sem ég lagði á Jóan sem fann Inga(Ingimar) og hann sendi innfyrir. Það er alltaf gaman að chippa í bleytunni þannig maður ákvað að gera það í þetta skiptið," sagði Elfar.