Hemir Guðjónsson þjálfari FH var að vonum nokkuð léttur í lund í viðtali við fréttaritara Fótbolta.net eftir 3-2 sigur hans manna á Keflavík á HS Orkuvellinum í Keflavík fyrr í kvöld. FH sem leiddi 2-0 í hálfleik máttu hafa sig alla við að landa stigunum þremur eftir að Keflavík jafnaði metin undir lok leiks. Björn Daníel Sverrisson sá þó tii þess að stigin fóru öll þrjú í Hafnarfjörðinn í þetta sinn. Gefum Heimi orðið.
Lestu um leikinn: Keflavík 2 - 3 FH
„Við svolítið hleyptum þeim inn í leikinn í seinni hálfleik eftir að hafa á löngum köflum í fyrri hálfleik spilað vel þar sem við náðum að opna þá með góðum færslum og blöndu af styttri og lengri sendingum. En í seinni hálfleik þá spiluðum við gegn okkur og gáfum þeim mark eftir sextíu mínútur og hleyptum þeim inn í leikinn. “
Eins og Heimir segir var FH liðið ekki upp á sitt besta í síðari hálfleik og þá sérstaklega ef miðað er við fyrri hálfleikinn. Kunni Heimir skýringu á þessari sveiflu?
„Það sem gerðist í síðari hálfleik var að Keflavík steig aðeins framar á okkur og við vorum ekki nógu klókir. Bæði að setja boltann innfyrir vörnina og að fara i svæðið á milli varnar og miðjum og vorum að missa boltann á slæmum stöðum sem varð þess valdandi að þeir jöfnuðu.“
FH batt þó enda á taphrinu með sigrinum í kvöld og tryggðu sér dýrmæt þrjú stig í baráttu um sæti í efri hluta deildarinnar. Eitthvað sem verður að teljast mikilvægt fyrir lið FH.
„Við tökum bara einn leik fyrir í einu. Að tapa þremur leikjum, við töpuðum illa fyrir Stjörnunni en síðan þá spiluðum við fínan leik á móti KR og þó við hefðum ekki skorað þá fengum við marga góða möguleika í þeim leik. Á móti Fylki vorum við svo góðir í seinni hálfleik og náðum svolítið að fylgja því eftir en það sem við þurfum að gera er að ná að vera betri í lengri tíma.“
Sagði Heimir en nánar er rætt við hann í spilaranum hér að ofan þar sem hann ræðir meðal annars nýja leikmenn FH.
Athugasemdir























