„Tilfinningin er bara góð. Það er gott að vinna Breiðablik og ég er bara virkilega ánægð með sigurinn," sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir, sóknarmaður Vals, eftir 1-0 sigur gegn Breiðabliki í Bestu deild kvenna í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 0 Breiðablik
Berglind skoraði tvennu í síðasta leik gegn Tindastóli en byrjaði á bekknum í dag. Hún átti fína innkomu í síðari hálfleik.
„Mér fannst við frábærar í fyrri hálfleik og við skorum frábært mark. Svo héldum við bara áfram í seinni hálfleik. Maður vill alltaf byrja leiki, en ég kom inn á og reyndi að gera mitt besta."
Berglind eignaðist sitt fyrsta barn á síðasta ári og hefur verið að koma til baka eftir það.
„Þetta hefur gengið fínt og er alltaf að verða betra og betra. Þetta kemur bara með hverjum leiknum. Mér fannst ég vera tilbúin (að spila meira) fyrir einhverjum leikjum síðan. Mér finnst ég vera tilbúin og vonandi fæ ég tækifæri fljótlega," segir Berglind.
Berglind er uppalin í Breiðabliki og hefur spilað stóran hluta ferilsins í græna hluta Kópavogs. Valur lagði meira á sig en Breiðablik til að fá hana fyrir tímabilið, en hvernig var að spila gegn uppeldisfélaginu?
„Þetta eru svona smá blendnar tilfinningar. Þetta er mitt uppeldisfélag en núna er ég Valsari. Það er geggjað að vinna þennan leik og vera á góðum stað á toppnum."
Allt viðtalið er í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir