Sigursteinn Gíslason var valinn þjálfari ársins í fyrstu deildinni í vali fyrirliða og þjálfara. Leiknir rétt missti af sæti í Pepsi-deild að ári en liðið hafnaði í þriðja sætinu í fyrstu deild eftir tap gegn Fjölni í lokaumferðinni.
,,Ég var að spá í að labba til Palla (þjálfara Þórs) og biðja hann um að skipta. Hann getur fengið þetta og ég fæ úrvalsdeildarsætið. Þetta er súrsætt, auðvitað er maður þakkláttur fyrir þetta," sagði Sigursteinn við Fótbolta.net í dag.
,,Við náðum í 43 stig og þetta er langbesti árangur Leiknis frá upphafi en maður er hundsvekktur að klára ekki dæmið. Mér skilst að við höfum verið í fyrsta eða öðru sæti nánast allt mótið."
,,Það eru einhverjar tvær eða þrjár umferðir þar sem við erum ekki á meðal tveggja efstu. Svona er fótboltinn, menn verða að kyngja þessu. Eins og ég sagði við strákana eftir leik, ef menn læra ekki af þessu þá eiga menn að finna sér eitthvað annað að gera, það er alveg klárt."
Sigursteinn ætlar að halda áfram sem þjálfari Leiknis og liðið stefnir upp á næsta ári.
,,Að sjálfsögu reynum við að gera betur. Við enduðum í sjöunda sæti í fyrra og þriðja núna. Mitt markmið er að halda línuritinu upp á við og ef það tekst þá skilar það sér upp í úrvalsdeild, það er klárt."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.























