
Þór tapaði gegn Þrótti í Lengjudeildinni í kvöld. Þór komst yfir en Þróttur skoraði tvö mörk undir lokin og fór með sigur af hólmi. Fótbolti.net ræddi við Sigurð Heiðar Höskuldsson, þjálfara Þórs, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór 1 - 2 Þróttur R.
„Ég met þetta þannig að við eigum að vera 5-0 yfir þegar þeir jafna leikinn. Mér fannst við mjög góðir í fyrri hálfleik, fáum sénsa til að vera tvö til þrjú núll yfir. Byrjum seinni hálfleikinn vel og eigum að vera löngu búnir að klára þennan leik," sagði Siggi.
„Ég held að þeir fái eitt færi í öllum leiknum og svo skot fyrir utan teig í skeytin. Það er pínu sagan okkar að það er skorað úr ótrúlegustu stöðum. Við erum ekki að fara fyrir skot á teignum og hann endar í samskeytunum. Lítið sem Aron getur gert í því."
„Að við skulum ekki stoppa fyrra markið og seinna markið að koma okkur ekki fyrir er óþolandi. Eins og við vorum búnir að vera góðir, mér fannst við svo sannarlega eiga að vinna þennan leik," sagði Siggi.
Þór hefur aðeins nælt í átta af 17 stigum mögulegum á heimavelli í sumar.
„Mér fannst við drullu góðir í dag og þetta á að skila sigri alveg sama á hvaða velli það er."
Siggi er sáttur með byrjun liðsins á mótinu. Næsti leikur er ekki fyrr en 12. júlí þegar Leiknir kemur í heimsókn.
„17 stig eftir fyrri umferð, við vildum labba inn í fríið með tuttugu. Þetta er galopið og fílingurinn er að við séum á mjög góðum stað. Það er fín pása sem við fáum núna svo menn fái að anda aðeins. Það er búið að vera mikið meiðslavesen á okkur þannig við hlöðum batteríin núna og komum vonandi mjög sprækir eftir frí og keyrum á þetta. Við erum klárlega með lið sem á að berjast um þetta,"
Athugasemdir