fös 07.feb 2020 15:45 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
FCK reyndi að fá Ísak á reynslu 12 ára - Foreldrar sögðu nei
Ísak Snær Þorvaldsson er átján ára miðjumaður. Hann hefur verið á mála hjá Norwich undanfarin ár en hann er uppalinn hjá Aftureldingu.
Frá Aftureldingu fór hann ásamt fjölskyldu sinni til Norwich árið 2016 og æfði með unglingaliði félagsins eftir að skóladeginum lauk. Árið 2017 skrifaði hann undir sinn fyrsta samning við Norwich, unglingasamning.
Í öllum landsliðshópum sem ég hef verið í þá finnst mér alltaf allir leikmennirnir vera tilbúnir í að hlaupa úr sér lungun fyrir hvern annan.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Undir lok félagaskiptagluggans nú í janúar fékk Ísak tilboð frá Fleetwood Town um að leika með liðinu á láni út þessa leiktíð, Ísak stökk á það tilboð. Fótbolti.net hafði samband við Ísak og spurði hann út í vistaskiptin í Norwich, tímann hjá Norwich, U19 ára landsliðið og hvernig leikmaður hann er á vellinum.
„Ég meira að segja vil frekar gefa utanfótar sendingu heldur en að nota vinstri löppina."
Fékk boð um að fara enn fyrr út
Árið 2015 fór Ísak fyrst á reynslu til Norwich, þá einungis fjórtán ára. Hann lék með liði Norwich á Rey Cup sumarið 2015 og hélt svo út til Englands árið 2016. Hvernig þróaðist áhugi Norwich og voru einhverjir aðrir möguleikar í boði á þeim tíma?
„Ég fór tvisvar sinnum á reynslu til Norwich áður en ég fór út til þeirra árið 2016," sagði Ísak við Fótbolta.net
„Eftir fyrri ferðina mína fór ég á reynslu til Reading og spilaði vel þar. Mér var boðið að koma aftur en ég var hrifnari af Norwich og því hélt ég mig við það. Áður en Norwich og Reading höfðu samband þá hafði FC Kaupmannahöfn samband og vildi fá mig út. Foreldrum mínum fannst ég of ungur til þess að fara út á þeim tíma og því varð ekkert úr því."
Hvað var Ísak gamall þegar FCK spurðist eftir honum? „Ég var tólf ára gamall þegar þeir buðu mér út á reynslu."
Þegar boðið kom frá Norwich var eitthvað annað sem kom til greina en að taka því boði? „Það var ekkert annað sem kom til greina en að fara út!"
Fóru foreldrar Ísaks með til Englands? „Foreldrar mínir vildu flytja með mér út, það var bara spurning um hvert og hvenær. Á endanum flutti öll fjölskyldan mín út til Norwich."
Hvernig var fyrsta árið úti í Norwich æfingalega séð og hver var samningsstaða Ísaks? „Fyrsta árið var ég ekki með neinn samning og var ekki á neinum launum. Ég kláraði tíunda bekkinn í Norwich og æfði með unglingaliðinu eftir að deginum í skólanum lauk."
Skrefið upp í varaliðið
Fréttaritari tók eftir því að Ísak bar fyrirliðabandið hjá U23 ára liði Norwich í tvígang í haust. Hvernig þróaðist ferill Ísaks úr U18 ára liðinu upp í varaliðið? Ísak var spurður hvort þróunin hafi verið ör.
„Ég var á þeim tímapunkti á leiðinni í landsliðsferð og gat því ekki mætt á æfinguna."
„Ég hafði verið nokkra leiki á bekknum hjá U23 17/18 tímabilið en kom aldrei inn á. Það var ekki fyrr en sumarið 2018 sem ég fékk tækifærið með U23 í æfingaleik á móti Colchester, ég kom inn á og spilaði síðustu tuttugu mínúturnar."
„Ég byrjaði siðan 18/19 tímabilið með u18 en var byrjaður að spila reglulega með u23 í kringum september/október og var síðan færður alveg yfir rétt fyrir jólin. Síðan í febrúar skrifaði ég undir fyrsta atvinnumannasamninginn minn."
„Restina af tímabilinu spilaði ég mjög vel og var síðan gerður að varafyrirliða á byrjuninni á þessu tímabili. Já ég get sagt að þetta hafi gerst svolítið hratt en á sama tíma gáfu skrefin uppávið mér mikið sjálfstraust."
Hefur Ísak verið nálægt aðalliðinu hjá Norwich eða haft samskipti við Daniel Farke, stjóra aðalliðsins? „Ég hef ekki talað mikið við Farke en mér var boðið á æfingu fyrir leik þegar það var mikið meiðslum í liðinu. Ég var á þeim tímapunkti á leiðinni í landsliðsferð og gat því ekki mætt á æfinguna."
Ísak Snær fór á láni frá Norwich, eins og fram kemur hér að ofan, og leikur með Fleetwood út þessa leiktíð. Nánar verður rætt við Ísak um skiptin yfir í Fleetwood í grein sem birtist seinna í dag.
Tilbúnir að hlaupa úr sér lungun fyrir hvern annan
Ísak er hluti af U19 ára landsliðinu sem er komið í milliriðla fyrir EM 2020. Íslenska liðið lék í undanriðli í Belgíu í nóvember síðastliðnum og tryggði sér þar farseðilinn til Ítalíu en þar fer milliriðill Íslands fram. Ísland mætir Noregi, Ítalíu og Slóveníu undir lok marsmánaðar. Sigurvegari riðilsins kemst á lokamótið sem haldið verður í Norður-Írlandi.
Ísak var spurður út í U19 landsliðið og hvað það væri sem einkenndi liðið. Hver er lykillinn að góðum árangri liðsins? „U19 landsliðið er mjög ungt (margir leikmenn enn átján ára) og allir í þessum hóp eru með þau gæði sem þarf til þess að vera í hópnum."
„Í öllum landsliðshópum sem ég hef verið í þá finnst mér alltaf allir leikmennirnir vera tilbúnir í að hlaupa úr sér lungun fyrir hvern annan til þess að ná sigri og það sama má segja með þennan U19 hóp. Ég held að það sé leiðin til þess að ná árangri - við spilum vel saman sem lið og getum náð langt á því."
Vinstri fóturinn nánast bara til að stíga í
Ísak var spurður um hvernig leikmaður hann væri. Hvað einkennir hans leikstíl?
„Ég sem leikmaður get leyst eiginlega allar stöður á vellinum en er bestur á miðjunni. Ég er "box to box" leikmaður, ég er sterkur varnalega og vil láta finna fyrir mér á vellinum. Ég er kraftmikill leikmaður og get tekið spretti fram á við til þess að búa til færi."
„Ég kýs að nota hægri fótinn á mer eins mikið og ég get, ég meira að segja vil frekar gefa utanfótar sendingu heldur en að nota vinstri löppina. En þegar þess gerist þörf get ég notað vinstri löppina en þá er ég búinn að útiloka aðra kosti í stöðunni," sagði Ísak hlæjandi að lokum.