Lars Lagerback, landsliðsþjálfari Íslands, ræddi við Fótbolta.net í dag á æfingu landsliðsins fyrir leikinn mikilvæga gegn Albaníu í undankeppni HM 2014 á Laugardalsvelli á þriðjudag.
Ísland gerði á föstudag 4-4 jafntefli gegn Sviss í Bern eftir ótrúlega endurkomu úr stöðunni 4-1, en Lagerback segir að ekki sé erfitt að fá menn til að leggja þennan tilfinningarússíbana að baki sér og einbeita sér að leiknum gegn Albönum.
„Ég held það sé ekkert vandamál, með þennan karakter sem þessir strákar hafa. En við ferðuðumst í gær og svo skiptum við þeim í hópa. Ég var með strákunum sem æfðu og spiluðu ekki meira en í 45 mínútur, og hinir fóru í endurhæfingu. Í morgun gátu þeir sofið fram að morgunmat, en við fundum í kvöld og þá fáum við að vita meira. En þetta virðist allt vera í lagi,“ sagði Lagerback við Fótbolta.net.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson mun ekki geta komið við sögu gegn Albaníu, en hann er enn meiddur. Lagerback er þó bjartsýnn varðandi Alfreð Finnbogason, sem spilaði ekki í Sviss.
„Gunnar Heiðar verður klárlega ekki með. Það gengur ekki vel með mjöðmina á honum, og við tókum ákvörðun með lækninum í gær að hann verði ekki í myndinni varðandi að spila á þriðjudag. Annars hafa leikmenn fengið einhver smá högg eins og alltaf eftir leik, en það ætti ekki að vera vandamál,“ sagði Svíinn.
„Svo er Alfreð enn spurningamerki, en hann mun æfa í dag og á morgun, og ef honum líður vel skoðum við það. Við gætum líka gefið honum verkjalyf ef hann vill, ég tel allavega að hann geti verið með á þriðjudag.“
„Auðvitað höfum við Heimir byrjað að ræða byrjunarliðið á þriðjudag. Við gerðum það líka með njósnaranum okkar, Ronald Andersson, og ræddum um styrkleika og veikleika. Það er allt opið, og við ræðum þetta. Í seinasta lagi á mánudagskvöld munum við vita 100 prósent hvernig byrjunarliðið lítur út,“ bætti hann við.
Lagerback vill ekki ræða of mikið um slæma frammistöðu einstakra leikmanna úti í Sviss, en varnarleikur liðsins var harðlega gagnrýndur, enda mörkin mörg í ódýrari kantinum.
„Ég sá í fjölmiðlum að sumir leikmenn voru gagnrýndir. Hluta af leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik, stóðum við okkur ekki mjög vel. En ég tel að stærsta vandamálið hafi ekki verið einstakir leikmenn, heldur gáfum við boltann of auðveldlega frá okkur í fyrri hálfleik. Gegn liði eins og Sviss, sem er með mjög góðar skyndisóknir, þá getur maður lent í vandræðum.“
Viðtalið við Lagerback má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir