„Þetta er... má ég kalla þetta sögu sumarsins? Mér finnst við alls ekki eiga skilið að tapa þessum leik. Fannst við byrja leikinn betur, fáum á okkur algjör drullumörk; tvö mörk á tveimur mínútum. Við töluðum í hálfleik að við hefðum engu að tapa, þyrftum að vinna leikinn til að blása lífi í baráttuna. Ég held við þurfum að vinna rest, sem er helvíti erfitt fyrir lið með tvo sigra á bakinu. Við minnkum muninn og jöfnum svo leikinn, fáum fullt af færum til að skora meira. Við settum alla fram, töpum boltanum á eigin vallarhelmingi í uppbótartíma og fáum á okkur sigurmarkið. You win some, you lose some," sagði Baldvin Már Borgarsson, aðstoðarþjálfari Ægis, í viðtali við Fótbolta.net eftir tap gegn Þór í Lengjudeildinni í kvöld.
Sigurmark Þórsara kom í uppbótartíma eftir að Ægir hafði náð að jafna leikinn í seinni hálfleik.
Sigurmark Þórsara kom í uppbótartíma eftir að Ægir hafði náð að jafna leikinn í seinni hálfleik.
Lestu um leikinn: Ægir 2 - 3 Þór
„Við erum með reynslulítið í þessari deild, komum upp á furðulegum tímapunkti á asnalegum forsendum. Hvort að það sé eitthvað í hausnum á mönnum, talaðir niður, áttum að vera fallbyssufóður. Við höfum afsannað það, eigum að vera með talsvert fleiri en þessa tvo ef horft er í frammistöður, leikurinn í dag er leikur sem við eigum að vinna. Í síðustu þremur var möguleiki á níu stigum en við fengum núll af þeim."
„Það eru móment sem eru endalaust á móti okkur... hérna dæmir Doddi (Þórður Þorsteinn Þórðarson dómari) vítaspyrnu, erum búnir að skoða það í útsendingunni. Það er bara pjúra víti, en þeir færa það út fyrir. Sami dómari dæmir vítaspyrnu fyrir Fjölni í fyrsta leik á 96. mínútu sem var fyrir utan teig. Þar eru risamóment sem snúast algjörlega gegn okkur. Kannski er auðveldara að snúast gegn okkur af því við erum litla liðið sem hefur aldrei verið í þessari deild áður, ég veit það ekki."
„Svo finnst mér mesta víti leiksins vera þegar Binni (Brynjólfur) er tekinn niður, kemur sér fram fyrir Þórsara sem tekur hann niður rétt í lokin. Þú reyndar skrifaðir að það væri ekki víti af því þú ert Þórsari, það var pjúra víti - mesta víti leiksins. En þeir sleppa því. Þessir hlutir hafa ekki fallið með okkur og þá er erfitt að vinna leiki."
Reyndi að sýna dómaranum vafaatriði í hálfleik
Baldvin ræddi við Þórð dómara þegar þeir gengu af velli í hálfleik. Þá var nýskeð atvikið þar sem Þórður benti á punktinn en ákvað svo að færa brotið út fyrir teig. Baldvin var með símann á lofti, vildi hann sýna dómaranum upptöku?
„Ég var með frostmynd af þessari hendi og ætlaði að sýna honum hana. Hann náttúrulega neitaði að skoða þetta út á velli, lítur illa út fyrir dómara að fara skoða myndbandsupptöku í hálfleik. Ég skil það alveg og sýndi honum þetta ekki. En hann hefur örugglega verið með þetta í hausnum og mögulega skoðað þetta sjálfur. Láki sakaði mig um að hafa endurforritað Dodda í hálfleik og sett hann á okkar vagn. Ég er ekki sammála því, mér fannst dómgæslan í dag ekkert spes og línan skrítin."
„Doddi vill hafa leikina harða og ekki vera dæma 'soft' brot, en þegar hann svo dæmir þau brot þá er línan orðin skrítin og það er óþolandi líka. Það var eins fyrir bæði lið og allir verða brjálaðir."
Baddi ræddi um kaflaskipta frammistöðu liðsins í leiknum, reynslu, klókindi og botnbaráttuna í viðtalinu. Atvikið sem hann ræddi um í lok leiks má sjá í spilaranum hér að neðan. Það verður ekki annað sagt en að dómari leiksins sé frábærlega staðsettur í því atviki. Dæmi hver fyrir sig.
Athugasemdir





















