Grindavík landaði sínum fyrsta heimasigri í talsvert langan tíma þegar liðið tók á móti Leikni fyrr í kvöld en lokatölur urðu 1-0 Grindavík í vil. Heimamenn byrjuðu leikinn talsvert betur og komust yfir snemma leiks en færðust aftar og aftar á völlinn eftir því sem á leið. Sigurinn vannst þó og auðvelt að tala um sannkallaðan vinnusigur að leik loknum. Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari Grindavíkur var til viðtals við Fótbolta.net að leik loknum.
Lestu um leikinn: Grindavík 1 - 0 Leiknir R.
„Þetta var vinnusigur klárlega, tala nú ekki um í seinni hálfleik. og seinni hluta fyrri hálfleiks þá þurftum við að hafa svolítið fyrir því að verja markið okkar. Í fyrri hálfleik leit þetta vel út, við vorum sennilega búnir að fá bestu færin í leiknum. En svo er það mannlegt að falla svolítið til baka, langt síðan við höfum unnið hérna á heimavelli og verja stöðuna og við lendum í því að vera svolítið djúpir og ragir á boltann í seinni hálfleik.“
Grindavík sem komst yfir snemma leiks féll vel aftur eftir markið og féll í raun aftar og aftar eftir því sem leið á leikinn. Eftir þessa björtu byrjun hvað útskýrir það? Eru menn mögulega bara ekki vanir að vera yfir eftir erfitt gengi í sumar?
„Já það er mögulega það. Við vorum með undirtökin fyrstu tuttugu í leiknum og vorum ógnandi og sköpuðum mjög góð færi og hefðum hæglega getað skorað þrjú fjögu mörk úr þessum færum. Svo förum við í að verja stöðu okkur, verðum passívir með boltann og leitum í að slútta sóknum svolítið snemma.“
Nú þegar félagaskiptaglugganum hefur verið lokað og leikmannahópar liða fullmótaðir. Var ekkert í kortunum hjá Grindavík að styrkja hópinn?
„Nei það var það ekki. Við treystum á hópinn, Dagur Austmann er mögulega á leið til baka og séns á að Marinó komi inn í þetta líka þannig að þá koma tveir leikmenn sem hafa verið frá. Við erum sáttir með hópinn eins og er og það var ekkert mikið í kortunum. “
Sagði Brynjar en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir






















