„Tilfinningin er gríðarlega góð, ég er virkilega ánægður með þessi þrjú stig, þetta eru þrjú mikilvæg stig, stór stig fyrir okkur fyrir áframhaldið," sagði Gyrðir Hrafn Guðbrandsson sem skoraði tvö mörk í 3 - 2 heimasigri FH á Val í Bestu-deildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: FH 3 - 2 Valur
Gyrðir kom inná sem varamaður í hálfleik og skoraði á 49. og 59. mínútu leiksins mörkin tvö sem sneru töpuðum leik í unninn.
„Ég fann ég kom inná með miklum krafti og var ánægður með það. Þjálfararnir vildu að ég myndi setja pressu á þá, þetta var baráttuleikur, og það gekk heldur betur upp," sagði Gyrðir.
Gyrðir spilaði mest sem miðvörður í Leikni þaðan sem hann kom til FH, en hjá FH spilar hann framarlega og raðar inn mörkunum, en er hann framherji?
„Ég get spilað framherjastöðuna og líður vel í henni," sagði Gyrðir. „Mér líður virkilega vel í skipulaginu hjá FH sem Heimir setti mig í. Ég er ánægður með það hlutverk sem ég fæ og líður vel þegar ég kem inná sem framliggjandi miðjumaður eða framherji."
Gyrðir hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá FH í sumar en nýtir þau þegar þau koma. Hann segist virkilega ánægður með hlutverkið sem hann fær, en vill hann ekki spila meira?
„Jú mig langar það, en þegar ég kem inná er ég mjög ánægður. Auðvitað vilja allir spila meira og ég set þá kröfu að spila mikið. Þetta er stórt félag með mikla samkeppni þar sem allir gera tilkall til að byrja."
Ef þú værir titlaður sem ofurvaramaðurinn Gyrðir eftir tímabilið, værirðu sáttur?
„Það væri svekkjandi því maður vill vera byrjunarliðsmaður en ég tek því eins og það er. Ég vil byrja alla leiki, ég er í þessu til þess."
Gyrðir kom inná í hálfleik en var hann búinn að lesa í það sem var að gerast áður? „Jájá, auðvitað, Heimir og Venni segja mér líka hvað ég á að gera og ég fer bara eftir þeirra fyrirmælum. Ég horfi líka á leikinn og sé hvaða styrkleika ég get komið með inn í leikinn og nýtt."
Gyrðir var að lokum spurður hvort hann hafi átt að gefa á Davíð Snæ í bæði skiptin? „Nei, Davíð var að biðja um boltann en ég valdi að klára þetta bara."






















