„Ég er gríðarlega sátt. Út frá því hvernig við vorum að spila í fyrri hálfleik þá var mjög gott að koma og taka þessa þrjá punkta,“ sagði Thelma Björk Einarsdóttir, miðjumaður Vals, eftir sterkan 3-1 útisigur á ÍBV.
Lestu um leikinn: ÍBV 1 - 3 Valur
Leikurinn var afar kaflaskiptur. Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en Valskonur tóku öll völd í þeim síðari.
„Í fyrri hálfleik var einhvernveginn ekkert að ganga upp hjá okkur. Við fengum eina góða Pétursræðu í hálfleik og þá breyttust hlutirnir,“ sagði Thelma en bætti við að það hefði þó ekki verið um svokallaða „hárþurrkuræðu“ að ræða.
Miðjumaðurinn öflugi átti mjög góðan leik fyrir Val og braut ísinn með fyrsta marki leiksins snemma í seinni hálfleik þegar hún skoraði með þrumuskoti utan teigs.
„Það var ágætis skyndisókn. Það myndaðist pláss á miðjunni og ég fékk ágætissvæði svo ég lét vaða.“
Valur tvöfaldaði forystuna 12 mínútum síðar þegar Elín Metta fékk dæmda vítaspyrnu sem hún skoraði úr sjálf. Aðdragandinn var klaufalegur af hálfu Eyjakvenna en frá stúkunni séð leit vítadómurinn út fyrir að vera harður. Fannst Thelmu þetta vera víti?
„Mér sýndist það frá mínu sjónarhorni. Ég var reyndar svolítið langt frá þessu en mér sýndist hún fara í Elínu Mettu þannig að þetta var víti fyrir mér“.
Nánar er rætt við Thelmu Björk í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























