
Xherdan Shaqiri átti frábæran leik, eins og allir aðrir leikmenn Sviss þegar liðið niðurlægði það íslenska í fyrsta leik liðanna í Þjóðadeildinni.
Lestu um leikinn: Sviss 6 - 0 Ísland
Shaqiri var gífurlega mikilvægur í sóknaraðgerðum Sviss og geta stuðningsmenn Liverpool verið spenntur ef hann heldur áfram að spila eins og hann gerði í dag.
Shaqiri, sem skoraði þó ekki í leiknum, ræddi við íslenska blaðamenn eftir leikinn.
„Þetta var mjög gott, við erum stoltir að hafa spilað svona. Við vorum með yfirburði í 90 mínútur, við fengum ekki á okkur mark og skoruðum sex. Þetta var fullkomið," sagði Shaqiri.
„Það vantaði leikmenn hjá Íslandi en við vissum að Ísland er góður andstæðingur, þeir eru með gott lið. Við vissum hvernig þeir myndu spila, en við spiluðum leik okkar frábærlega."
„Við fengum færi til að skora fleiri mörk, það er rétt. Við áttum skilið að vinna."
Gleymir aldrei 4-4 jafnteflinu
Ísland hefur núna tapað sex sinnum og gert eitt jafntefli gegn Sviss. Jafnteflisleikurinn er mjög eftirminnilegur, 4-4 þar sem Jóhann Berg Guðmundsson skoraði þrennu. Shaqiri spilaði leikinn í Bern.
„Ég gleymi aldrei þessum leik. Þetta var mjög sérstakur leikur fyrir Ísland," sagði Shaqiri.
„Ísland átti ekki sinn besta dag og við áttum mjög góðan dag. Þegar við erum á okkar degi er mjög erfitt að stoppa okkur."
Athugasemdir