Man Utd gæti gert tilboð í Berge - Arsenal hefur enn áhuga á Osimhen - Tottenham hefur áhuga á Solanke
   fim 11. júlí 2024 15:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Væri geggjað að klára markmiðið heima - „Eigum við að gefa það allt upp eða?"
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði.
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr síðasta heimaleik gegn Þýskalandi.
Úr síðasta heimaleik gegn Þýskalandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við erum alltaf bjartsýn og við teljum okkur alltaf eiga möguleika á því að vinna fótboltaleiki, sama á móti hverjum það er," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, á fréttamannafundi í dag.

Á morgun, klukkan 16:15, spilar Ísland við Þýskaland í undankeppni EM 2025. Með sigri tryggir Íslands sig inn á lokakeppni EM með einn leik eftir í riðlinum.

„Við förum í alla leiki til að vinna. Þannig legg ég upp leikinn á morgun; við spilum til sigurs og ekkert annað. Það hefur ekkert annað verið rætt, við ætlum bara að mæta í leikinn og vinna hann. Við erum að taka eitt skref í einu. Ef við bætum spilamennskuna um eitt lítið skref áfram, þá eigum við mjög góðan möguleika," sagði landsliðsþjálfarinn jafnframt.

Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði, sat einnig fundinn og tók í sama streng.

„Það er svo sem ekki miklu að bæta við það. Við erum spenntar og það væri geggjað að klára þetta á heimavelli," sagði Glódís en hvað þarf til að vinna leikinn?

„Auðvitað mun varn­ar­leik­ur­inn okk­ar skipta miklu máli í þess­um leik. Þær eru með sterka ein­stak­linga og leik­menn sem geta gert frá­bæra hluti upp á eigin spýtur. Þær eru sterkar í fyrirgjöfum og í kring­um boxið. Að sama skapi sjá­um við ákveðna mögu­leika í því. Þetta verður gríðarlega erfitt verk­efni fyr­ir okk­ur en við erum spennt­ar og bún­ar að fara vel yfir okk­ar leikpl­an. Við ætl­um að eiga góðan dag á morg­un," bætti fyrirliðinn við.

Landsliðsþjálfarinn var svo spurður út í sóknarmöguleika gegn þýska liðinu, sem er eitt það sterkasta í heimi.

„Eigum við að gefa það allt upp eða?" sagði Þorsteinn léttur. „Við erum búin að sjá ýmislegt og munu reyna að spila inn á það á morgun þegar tækifærin gefast. Við teljum að það séu veikleikar hjá þeim í ákveðnum stöðum. Við munum stefna á það á morgun að nýta okkur það. Í síðasta leik sköpuðum við okkur góð færi úr til dæmis föstum leikatriðum og við þurfum að gera það aftur í leiknum á morgun. Við þurfum að framkvæma þau atriði vel og ef við gerum það erum við líkleg til að skora úr föstu leikatriði á móti þeim. Það eru ýmis atriði sem við höfum verið að teikna upp og skoða."

„Við þurfum að fækka þeim tilfellum þar sem þær komast í fyrirgjafastöður. Við þurfum að vísa þeim úr þeim stöðum að þær komist ekki einn á einn á góðum stað. Við þurfum að verjast vel inn í vítateignum og vera grimm þar. Við þurfum að verja markið okkar vel til að vinna þær," sagði landsliðsþjálfarinn jafnframt.

Einn minn uppáhalds landsleikur
Þýskaland hefur verið með yfirburði gegn Íslandi í gegnum tíðina en okkar stelpur hafa einu sinni farið með sigur af hólmi. Sá sigur kom í Wiesbaden árið 2017, 2-3 sigur hjá Íslandi. Glódís Perla tók þátt í þeim leik.

„Það er einn af, ef ekki bara uppáhalds landsleikurinn minn. Þetta var og er risastórt að við náðum í sigur á útivelli gegn Þýskalandi. Það gefur okkur trú á að við getum unnið Þjóðverja. Þetta er ekki óyfirstíganlegt verkefni sem við erum að fara í og ef við lendum á góðum degi, þá er allt hægt. Það þarf allt að ganga upp til að það verði," sagði Glódís og hélt áfram:

„Þetta er einn af mínum uppáhalds landsleikjum og mér myndi ekki finnast leiðinlegt að vinna Þjóðverja aftur, sérstaklega þar sem ég er núna að spila í Þýskalandi. Maður verður enn hungraðari í því að sýna hvað við getum sem lið og þjóð því ég er að spila þar. Við viljum ekki að það sé talað niður til okkar, við viljum að önnur lið beri virðingu fyrir okkur og því sem við stöndum fyrir. Þetta verður gríðarlega spennandi leikur."
Athugasemdir
banner
banner