Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   sun 18. desember 2022 22:24
Brynjar Ingi Erluson
Veikindin höfðu áhrif á Frakka - „Ég verð að fara varlega en þið sáuð þetta"
Didier Deschamps gengur framhjá bikarnum
Didier Deschamps gengur framhjá bikarnum
Mynd: EPA
Deschamps með Emmanuel Macron, forseta Frakklands, og Kylian Mbappe
Deschamps með Emmanuel Macron, forseta Frakklands, og Kylian Mbappe
Mynd: EPA
Didier Deschamps, þjálfari Frakklands, talaði örlítið í gátum eftir tapið gegn Argentínu í kvöld.

Franska liðið mætti ekki til leiks fyrsta klukkutímann í leiknum gegn Argentínu en eftir það fór boltinn að rúlla. Kylian Mbappe skoraði tvö á 97 sekúndum og staðan jöfn.

Framlengingin var hin mesta skemmtun fyrir áhorfendur en Frakkar töpuðu í vítakeppninni. Leikmenn franska liðsins glímdu við veikindi fyrir leikinn en ekki er ólíklegt að það hafi haft áhrif á frammistöðuna í kvöld.

„Allur hópurinn hefur verið að glíma við erfiðar aðstæður undanfarið. Kannski hafði það andleg eða líkamleg áhrif á frammistöðuna. Persónulega þá hafði ég engar áhyggjur af þeim leikmönnum sem byrjuðu leikinn, þeir voru allir 100 prósent klárir,“ sagði Deschamps.

„Við fengum aðeins fjóra daga frá síðasta leik þannig það var einhver þreyta kannski, en það er engin afsökun. Við vorum bara ekki með sömu orku og í síðasta leik og það er ástæðan. Við vorum ekki inn í leiknum í klukkutíma eða svo,“ sagði Deschamps.

Þjálfarinn sagði frá því eftir leikinn frá samtali hans við pólska dómarann Szymon Marciniak, en vildi þó ekki ræða smáatriðin úr því samtali.

„Ég þarf að fara varlega í þessu. Þið sáuð þetta líka,“ sagði Deschamps og bætti svo við.

„Dómgæslan gat verið verri eða betri. Fyrir þennan leik hafði Argentína haft heppnina aðeins með sér en ég vil ekki taka neitt af þeim. Þeir áttu þennan titil fyllilega skilið. Það er ekki það að við þurftum að þjást vegna ákvarðana og að það sé ástæðan fyrir að þeir unnu. Ég ræddi bara aðeins við dómarann eftir leikinn en vil ekki ræða það frekar.“

Kylian Mbappe átti stórkostlegt mót. Hann skoraði átta mörk og var markahæsti maðurinn þar. Þrenna hans í úrslitaleiknum færði honum þó ekki bikarinn í leikslok.

„Kylian er svo sannarlega búinn að setja svip sinn á þennan úrslitaleik. Því miður endaði þetta ekki eins og hann hefði viljað og þess vegna var hann vonsvikinn í lok leiks eins og allir hinir leikmennirnir,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner