
Ögmundur Kristinsson spilaði í marki Íslands gegn Tyrklandi fyrir tveimur árum síðan. Ögmundur er í markvarðateymi landsliðsins fyrir leikinn á föstudaginn og gæti verið í rammanum ef meiðsli Hannesar reynast alvarleg.
Ögmundur ræddi við Fótbolta.net fyrir æfingu í Antalya í dag. Þar var meðal annars rætt um félagaskipti hans í hollensku úrvalsdeildina. Hann yfirgaf nýlega sænska boltann og gekk í raðir Excelsior.
„Þetta er gott skref fyrir mig. Ég er kominn í töluvert sterkari deild. Ég var að leita eftir því að taka skrefið frá Skandinavíu og það er ánægjulegt að það tókst," segir Ögmundur sem er kominn í skemmtilegt fótboltaumhverfi.
„Það er mikil umfjöllun og mikil fótboltamenning. Fótboltastíllinn er öðruvísi en maður er vanur. Ég er að komast ágætlega inn í þetta. Það var skrítið að spila eftir 2-3 æfingar, maður var nýbúinn að læra nöfnin á leikmönnum. En það hefur gengið fínt og verið stígandi í þessu hjá mér."
„Liðið spilar eins og önnur hollensk lið. Það er spilað strax frá markverði og lítið um langar kýlingar. Það er reynt að spila fótbolta við öll tækifæri."
Ögmundur segir mjög jákvætt fyrir landsliðið að Ísland sé að eignast fleiri samkeppnishæfa markverði. Samkeppnin geri menn betri og hann hafi meðal annars leitað eftir því að fara í sterkari deild til að gera enn meira tilkall í að vera í hópnum.
Viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir