fös 11. september 2020 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Spáin fyrir enska - 2. sæti
Liverpool
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp - þýski töframaðurinn.
Jurgen Klopp - þýski töframaðurinn.
Mynd: Getty Images
Virgil van Dijk og Sadio Mane, tveir allra mikilvægustu leikmennirnir.
Virgil van Dijk og Sadio Mane, tveir allra mikilvægustu leikmennirnir.
Mynd: Getty Images
Þegar Liverpool féll úr leik í Meistaradeildinni sást það svart á hvítu hversu mikilvægur Alisson er.
Þegar Liverpool féll úr leik í Meistaradeildinni sást það svart á hvítu hversu mikilvægur Alisson er.
Mynd: Getty Images
Rhian Brewster kom inn á gegn Arsenal í Samfélagsskildinum en honum brást bogalistin í vítaspyrnukeppni.
Rhian Brewster kom inn á gegn Arsenal í Samfélagsskildinum en honum brást bogalistin í vítaspyrnukeppni.
Mynd: Getty Images
Eftir undirbúningstímabil í styttri kantinum mun enska úrvalsdeildin hefjast aftur þann 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 2. sæti er Liverpool.

Um liðið: Það var svo gott sem allt kreist úr leikmannahópi félagsins á síðasta tímabili þegar fyrsti deildartitilinn vannst í 30 ár. Titilinn var sá nítjándi frá upphafi sem er einum minna en erkifjendurnir í Manchester United. Munurinn á fyrsta og öðru sæti voru átján stig og hefði munurinn verið stærri ef Liverpool hefði ekki aðeins slakað á klónni eftir að titilinn var í húsi.

Stjórinn: Jurgen Klopp
8. sæti, 4. sæti, 4. sæti, 2. sæti og loks það fyrsta - tímaibilin undir stjórn Klopp. „Á næsta tímabili erum við ekki að verja eitt eða neitt, við ætlum að sækja," sagði Klopp eftir að titilinn vannst í sumar. „Ég er ekki fullkomlega fullnægður, við erum í miðjum klíðum." Klopp tók við árið 2015 og byggði hann upp sitt lið eftir eigin höfði með frábærum árangri. Englandsmeistari í sumar og Evrópumeistari í fyrra. Klopp þarf aftur að ná því allra besta úr lítið breyttum leikmannahópi.

Staða á síðasta tímabili: 1. sæti - Englandsmeistari.

Styrkleikar: Hópurinn þekkist mjög vel og hefur haldist svo gott sem óbreyttur frá sumrinu 2018. Jafnvægið og stöðugleikinn er því mikill kostur blandan í hópnum frábær. Önnur félög vilja gera það sem Liverpool gerði til að komast á þann stað sem félagið er á núna. Hugarfarið og hungrið í hópnum er til fyrirmyndar. Það voru hellingur af leikjum á síðustu leiktíð sem Liverpool átti kannski ekki að vinna en einhvern veginn vannst samt sigur, þetta snýst ekki allt um heppni. Minnti svolítið á hvernig Manchester United undir stjórn Sir Alex náði að kreista út sigra þrátt fyrir að engin flugeldasýning hafi verið inn á vellinum.

Veikleikar: Takmörkuð breidd. Þeir Adam Lallana og Dejan Lovren, leikmenn sem fengu mínútur inn á milli eru farnir. Klopp fékk ekki margar mínútur frá Xherdan Shaqiri á síðustu leiktíð en blessunarlega héldust fremstu þrír heilir og Divock Origi gat leyst af ef þurfti . Minamino var fenginn inn í janúar og getur hann hjálpað fram á við ásamt Origi. Þegar Alisson var frá sást, sérstaklega í Meistaradeildinni, að Alisson er í hæsta gæðaflokki og Adrian nokkrum flokkum neðar.

Talan: 20. Tuttugasti Englandsmeistaratitilinn er markmiðið og myndi það jafna Man Utd sem er eina félagið sem unnið hefur titilinn oftar en Liverpool.

Lykilmaður: Virgil van Dijk
Þessi klettur í vörninni er sú stærð sem er sú mikilvægasta í liði Englandsmeistaranna. Van Dijk spilaði hverja einustu mínútu í deildinni á síðustu leiktíð og það að hann sé alltaf heill er gífurlega mikilvægt. Það er bara spurning hvort það sé Joe Gomez eða Joel Matip sem spilar við hlið þessa besta varnarmanns deildarinnar.

Fylgstu með: Rhian Brewster
Brewster fór á lán til Swansea í janúar og skoraði 11 mörk í 22 leikjum. Liverpool skoðaði að fá Timo Werner inn í liðið og staða Divock Origi er í einhverri óvissu. Tækifærið fyrir Brewster þennan veturinn gæti verið á Anfield. Ki-Jana Hoever, Neco Williams, Harvey Elliott og Curtis Jones gætu einnig fengið mínútur.

Tómas Þór Þórðarson - ritstjóri enska boltans hjá Símanum:
„Það er djarft hjá Jürgen Klopp að fara inn í nýtt mót með nánast sama mannskapinn sem var að vinna deildina. Sigurvegarar samtíðarinnar í stjórastólum álfunnar hafa löngum talað um að meistaralið verði að bæta við sig mönnum til þess að halda mönnum á tánum og gera þá sem fyrir eru hungraðari. Það má þó ekki gleymast að stjóri Liverpool er Jürgen Klopp sem er engum líkur þegar kemur að ástríðu og að gera menn hungraða. Liverpool-liðið er augljóslega nógu gott og rúmlega það til að vinna deildina en spurning er hvort smá viðbót eins og Thiago sé það sem vantar til þess að halda drottnuninni áfram.“

Komnir:
Kostas Tsimikas frá Olympiakos - 11,8 milljónir

Farnir:
Pedro Chrivella til Nantes - Frítt
Dejan Lovren til Zenit - 10,9 milljónir
Nathaniel Clyne - Án félags
Adam Lallana til Brighton - Frítt
Ovie Ejaria til Reading - Óuppgefið
Sheyi Ojo til Cardiff - Lán

Fyrstu leikir: Leeds (H), Chelsea (Ú) og Arsenal (H).

Þau sem spáðu: Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynja Dögg Sigurpálsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Ester Ósk Árnadóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, Sverrir Örn Einarsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1. ?
2. Liverpool, 229 stig
3. Man Utd, 212 stig
4. Chelsea, 210 stig
5. Arsenal, 192 stig
6. Tottenham, 182 stig
7. Leicester, 161 stig
8. Wolves, 160 stig
9. Everton, 146 stig
10. Southampton, 113 stig
11. Sheffield United, 101 stig
12. Burnley, 99 stig
13. Leeds, 95 stig
14. West Ham, 93 stig
15. Crystal Palace, 80 stig
16. Newcastle, 76 stig
17. Brighton, 49 stig
18. Aston Villa, 39 stig
19. Fulham, 30 stig
20. West Brom, 20 stig

Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner