
Arnór Ingvi Traustason byrjaði á miðju íslenska landsliðsins á útivelli gegn sterku liði Slóvakíu í undankeppni EM í kvöld.
Lestu um leikinn: Slóvakía 4 - 2 Ísland
Hann entist þó ekki lengi á vellinum og þurfti að fá skiptingu á 25. mínútu leiksins, í stöðunni 0-1 fyrir Ísland. Arnór Ingvi segist hafa stífnað upp í mjöðminni og að hann muni ekki komast að því fyrr en á morgun hversu slæm meiðslin eru.
Slóvakar sneru stöðunni heldur betur við eftir meiðsli Arnórs og voru komnir með 4-1 forystu aðeins hálftíma síðar.
„Mig langaði mjög mikið að reyna og halda áfram, sérstaklega eftir að við komumst yfir, en það bara gekk ekki," sagði Arnór svekktur eftir 4-2 tap. „Það vantaði helvíti mikið uppá hjá okkur. Við trúðum ekki á okkur sjálfa, við vorum að fela okkur og koma hvorum öðrum í erfiðar stöður. Þannig sýndist mér þetta vera frá bekknum.
„Við þurfum að fá meira jafnvægi í okkar leik."
Athugasemdir