„Þetta er svolítið sérstakt en þetta var líka svona fyrir Króatíu leikinn í fyrra. Það er gott að komast í undirbúning þó að við séum fáir," sagði Jón Daði Böðvarsson við Fótbolta.net í dag en hann er einn af fimm landsliðsmönnum sem eru mættir til æfinga fyrir HM í sumar.
Flestir leikmenn eru ennþá að með félagsliðum sínum eða í stuttu fríi eftir tímabilið en þeir sem kláruðu tímabil sín um þarsíðustu helgi eru mættir til æfinga. Jón Daði fór sjálfur í frí til Ísrael eftir að tímabilið kláraðist í Championship deildinni.
Flestir leikmenn eru ennþá að með félagsliðum sínum eða í stuttu fríi eftir tímabilið en þeir sem kláruðu tímabil sín um þarsíðustu helgi eru mættir til æfinga. Jón Daði fór sjálfur í frí til Ísrael eftir að tímabilið kláraðist í Championship deildinni.
„Ég fór í frí með konunni til Tel Aviv í Ísrael. Ég náði að slaka vel á þar á ströndinni og ég náði líka að halda mér í standi á sama tíma. Ég fór eftir ákveðnu prógrami frá landsliðinu og kem hingað endurnærður og ferskur."
29 dagar eru í fyrsta leik Íslands á HM og Jón Daði er mjög spenntur fyrr mótinu í Rússlandi.
„Þegar maður var að spila með Reading þá var regla að hugsa ekki of mikið út í þetta, það gat verið truflandi. Núna er spennan komin þegar maður er kominn hingað. Maður er næstum því yfirspenntur og getur ekki beðið."
Brattur fyrir næsta tímabil
Jón Daði var markahæsti leikmaður Reading á nýliðnu tímabili en liðið var í fallbaráttu. „Persónulega gekk mjög vel. Ég skoraði fleiri mörk en vanalega og það var stígandi í leik mínum. Maður er alltaf að bæta sig meira og meira. Þrátt fyrir að maður hafi spilað vel þá vill maður meira og meira," sagði Jón Daði sem er brattur fyrir næsta tímabil hjá Reading.
„Ég er með jákvæða tilfinningu fyrir næsta tímabili. Menn eru með þetta tímabil sem er liðið bakvið eyrað en við ætlum að koma sterkir til leiks á næsta tímabili og láta þetta ekki gerast aftur," sagði Jón Daði en hann ætlar að vera áfram hjá Reading.
„Ég býst við því. Mér líður vel þarna. Þetta er flottur klúbbur og flottur staður. Það er kominn flottur þjálfari (Paul Clement) líka. Það eru meiri líkur en minni að ég verði þarna áfram."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir






















