
„Við byrjuðum ekki nógu vel. Við vissum að þær eru tæknilega góðar en við drulluðum á okkkur í markinu og ég tek fulla ábyrgð á því," sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir miðjumaður Íslands eftir 1 - 1 jafntefli við Serbíu í umspili um áframhaldandi sæti í Þjóðadeild kvenna í dag.
Lestu um leikinn: Serbía 1 - 1 Ísland
„Þetta var fullauðvelt hjá þeim en við komum vel til baka og seinni hálfleikurinn var skárri. Við brutum þetta oftar upp en vantaði að fá úrslitasendinguna. Ég er jákvæð," hélt hún áfram.
Serbía komst yfir á 19. mínútu leiksins Selma Sól Magnúsdóttir og Karólína voru ekki alveg á tánum svo Tijana Filipovic náði góðu skoti í teignum. Um markið sagði Karólína.
„Þetta var alltof auðvelt, ég stíg of ofarlega og þá komst hún í gegn, hún er rosalega góð tían þeirra. Við þurfum að hafa gætur á henni en eftir þetta áttu þær ekki tækifæri í hornum. Við lærum af þessu og þurfum bara að halda áfram."
Ísland svaraði strax með marki sem við skráum enn á Alexöndru Jóhannsdóttur en gæti verið skráð sem sjálfsmark.
„Þetta var eitthvað ljótasta mark sem ég hef séð en mark er mark og ég vissi að við myndum jafna þetta. Við fengum orku með rauða spjaldinu og hefðum kannski átt að taka þetta í lokin eftir það. En það gekk ekki í dag og við förum aftur á þriðjudaginn," sagði Karólína.
Hún vissi ekki að það væri besta vinkona hennar Alexandra sem hafði skorað markið sem var mikið pot og sagði:
„Var þetta Alex? Hún er nú vön því að þruma boltanum inn, hún hefur verið að skora screamer mörk í ítölsku deildinni. Kannski var þetta týpískt landsliðsmark hjá henni en hún skorar ansi falleg mörk líka."
Athugasemdir