Ísland mætir Slóveníu á morgun í undankeppni HM kvenna, leikurinn fer fram í Levanda í Slóveníu og verður klukkan 15:00 að íslenskum tíma. Ísland verður að vinna leikinn í baráttunni um að komast á HM.
„Þessi leikur er mikilvægur upp á framhaldið. Við höfum komið hingað áður og þá gekk vel. Vonandi verður þetta svipað," segir Hallbera Guðný Gísladóttir, leikmaður Íslands.
Á árinu 2015 vann Ísland 6-0 sigur gegn Slóveníu á vellinum þar sem leikið verður á morgun. Gætum við fengið annan álíka sigur?
„Það væri fínt en maður reiknar ekki endilega með því. Slóvenía hefur fínt lið og marga góða leikmenn. Við byrjum á því að setja eitt og sjáum til hvort þau verði sex!"
Er stefnan sett á að reyna að skora snemma á morgun?
„Það er alltaf fínt að skora snemma og sérstaklega þegar lið eru að fara að vera meira í vörn. Það getur verið erfiðara að brjóta þau lið niður eftir því sem lengra líður á leikinn. Það væri mjög gott að fá mark snemma í leiknum. Ef við spilum okkar leik þá eigum við að vinna þennan leik."
Sjáðu viðtalið í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir






















