Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
banner
   þri 19. júlí 2016 18:30
Arnar Daði Arnarsson
Davíð Þór: Erum hérna til að spila fótbolta
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH.
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Íslandsmeistararnir í FH taka á móti írska liðinu, Dundalk í seinni leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar annað kvöld, klukkan 19:15.

Fyrri leikurinn endaði með jafntefli ytra 1-1 og eru FH-ingar því í fínum málum fyrir seinni leikinn. Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH segir það mikilvægt að FH-liðið haldi boltanum betur innan liðsins en í fyrri leiknum.

Ekki nægilega hreyfanlegir
„Þeir eru mjög aggresívir og þegar við náðum að láta boltann ganga í fáum snertingum þá voru klárlega svæði sem við hefðum getað nýtt okkur betur. En við á löngum köflum sérstaklega í byrjun leiksins þá vorum við ekki nægilega hreyfanlegir og kaldir á boltann."

„Það er eins og í öllum liðum að ef þú nærð að hreyfa boltann og skipta honum á milli kanta þá nærðu að opna svæði og þegar lið eru eins aggresív og þeir eru, þá opnast ágætis svæði og við verðum að reyna nýta okkur það betur á morgun," sagði Davíð Þór.

Umræða skapaðist um aðstæðurnar í Írlandi þar sem gervigrasvöllur, heimavöllur Dundalk var ekki upp á marga fiska. Davíð Þór segir að aðstæðurnar hafi ekki haft mikil áhrif í leiknum.

„Kannski aðeins til að byrja með. Við æfðum í klukkutíma fyrir leik og þar náði maður aðeins að venjast þessu. Það tók kannski aðeins tíma að venjast skoppinu á boltanum en það hafði engin úrslitaáhrif. Ég hef ekki lagt það til að við leggjum svona gervigras á Krikann," sagði Davíð Þór kíminn.

Fjárhagslegur ábati fyrir félagið
Það er ljóst að fari FH áfram úr þessu einvígi er stutt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og ég tala nú ekki um Evrópudeildarinnar. Komist FH áfram bíða þeirra að minnsta kosti fjórir Evrópuleikir til viðbóta. Peningarnir sem því fylgir, eru gríðarlegir.

„Það vita það allir að með velgegni í Evrópukeppninni fylgir mikill fjárhagslegur ábati fyrir félagið. Að sjálfsögðu vita það allir en það er samt þannig að við erum hérna til að spila fótbolta, ná í sem flest stig í deildinni og reyna komast áfram í Evrópukeppninni og það er aðallega það sem drífur okkur áfram."

„Við vitum það að það er mjög gaman að komast áfram í þessari keppni og það sem drífur okkur aðallega áfram í dag er að ef við komumst áfram úr þessari umferð þá bíða okkur í það minnsta fjórir Evrópuleikir gegn sterkum liðum. Síðan geta þeir sem eru á skrifstofunni verið svefnlausir yfir þessum peningamálum og peningapottum sem eru í boði," sagði fyrirliði FH-inga, Davíð Þór Viðarsson að lokum.
Athugasemdir
banner
banner