
,,Stemningin er virkilega góð. Það er tilhlökkun fyrir þessum leik," sagði Hlynur Svan Eiríksson þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í dag en liðið mætir Þór/KA í úrslitum Borgunarbikarsins á laugardag.
,,Ég held að möguleikarnir séu hnífjafnir. Þegar komið er út í bikarúrslitaleik þá myndi ég halda að dagsformið skipti gríðarlega miklu máli."
Meiðsli eru í herbúðum Breiðabliks fyrir leikinn á laugardag.
,,Staðan á leikmannahópnum gæti verið betri. Það er stutt síðan að við spilum síðast í deildinni, það var á þriðjudagskvöld þar sem við lentum í hörðum leik við Selfoss. Það fóru leikmenn meiddir út af þar en þær eru að skríða saman. Ég veit ekki alveg hvort þær eru klárar eða ekki, það verður bara að koma í ljós," sagði Hlynur.
,,Að sjálfsögðu hefði ég viljað fá aðeins lengri hvíld. Við spiluðum á þriðjudagskvöld og þessi leikur er á laugardag en svona er þetta og við tökum því."
Berglind Björg Þorvaldsdóttir og María Rós Arngrímsdóttir eru báðir í námi í Bandaríkjunum og önnur þeirra kemur til landsins sérstaklega fyrir bikarleikinn.
,,Við erum með tvo leikmenn sem hafa farið út í nám og annar þeirra kemur heim," sagði Hlynur sem vill ekki gefa upp hvor leikmaðurinn flýgur heim.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir