„Mér líður mjög vel," sagði Aldís Guðlaugsdóttir, markvörður FH, í samtali við Fótbolta.net í dag. Aldís er mætt í A-landsliðshópinn í fyrsta sinn.
„Þetta var smá sjokkerandi fyrst (að fá fréttirnar) en svo var ég bara mjög sátt."
Aldís, sem er 19 ára gömul, var einn öflugasti markvörður Bestu deildarinnar í sumar. Hún var að spila sitt fyrsta tímabil í deildinni en hún lék afskaplega vel með FH sem kom á óvart með því að vera í efri hlutanum.
„Ég þekki nokkrar af stelpunum í hópnum en þær hafa tekið mjög vel á móti mér," segir Aldís en hún tók mikilvægt skref yfir til FH frá Val í fyrra.
„Þetta var mjög erfið ákvörðun ég þurfti að hugsa um að fá að spila. Ég dýrka að vera í FH."
Aldís er uppalin á Snæfellsnesi en þær eru núna tvær í landsliðinu sem stigu sín fyrstu skref í fótboltanum þar; Aldís og Sædís Rún Heiðarsdóttir. Var Aldís á sínum yngri árum að búast við því að verða A-landsliðsmarkvörður í framtíðinni?
„Nei, alls ekki. Það var svolítið bara að mæta til að hafa gaman. Svo var ég valin í U15 og ég hugsaði þá að ég ætti séns," sagði Aldís. „Ég og Sædís erum náskyldar. Við náum vel saman og ólumst upp saman í 16 ár. Við erum mjög góðar vinkonur."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir