mán 25.mar 2024 15:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá Fótbolta.net - 12. sæti: HK
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að HK muni enda í tólfta og neðsta Bestu deildarinnar í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. HK fellur niður í Lengjudeildina ef spáin rætist.
Þorsteinn Aron Antonsson gekk í raðir félagsins frá Val.
Mynd/Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. HK, 14 stig
Um liðið: HK mætti af krafti í Bestu deildina á síðasta tímabili eftir að hafa komið upp sem nýliðar. Það bjuggust svo gott sem allir við því að HK myndi fara lóðrétt niður en þeir gerðu sér lítið fyrir og tóku sigur gegn þáverandi Íslandsmeisturum - og sínum helstu erkifjendum - í Breiðabliki í fyrstu umferð. Það var rosalegur leikur og HK tók það með sér inn í mótið, en eftir því sem leið á þá fór að hægjast á lestinni og var HK ekki langt frá því að lenda í vandræðum í lokin. Liðið hélt sér að lokum uppi en bjartsýni er ekki orðið fyrir HK-inga eftir veturinn sem hefur verið ansi rólegur, of rólegur.
Þjálfarinn: Það væri ekki vitlaust að segja að Ómar Ingi Guðmundsson sé bara herra HK. Hann er búinn að vera afskaplega lengi hjá félaginu og hefur þjálfað ansi marga leikmenn þarna. Ómar stýrði HK upp í Bestu deildina og hélt liðinu uppi á síðasta tímabili. Fyrir það á hann skilið mikið hrós. Að halda liðinu uppi á nýjan leik væri gríðarlegt afrek fyrir þennan mikla HK-ing. Ómar er dáður og dýrkaður í Kórnum og það mun ekki breytast á næstunni.
Fótbolti.net fær sérfræðingana Einar Guðnason og Harald Árna Hróðmarsson til að rýna í styrkleika, veikleika og margt annað hjá liðunum sem spila í Bestu deildinni í sumar. Einar, sem er fyrrum aðstoðarþjálfari Víkings, fer yfir það helsta hjá HK.
Styrkleikar: Heimavöllurinn getur verið styrkleiki. Þegar HK Ultras eru í stuði myndast skemmtileg stemning sem minnir á handboltaleiki. HK fengu 17 af 27 stigum sínum í fyrra á heimavelli en þurfa að mínu mati að ná í fleiri stig í Kórnum í sumar. Ómar Ingi er með stórt HK hjarta og hann nær að gíra leikmenn upp fyrir stóra leiki en það var það sem hélt liðinu uppi í fyrra. Hann nær líka oft að kveikja á leikmönnum sem hafa átt erfitt uppdráttar í öðrum félögum. Spurningin er bara hvaða leikmaður það verður í sumar.
Veikleikar: HK er með litla breidd og það er óvíst hver á að skora mörkin fyrir þá en þeir skoruðu aðeins fjögur mörk í fimm leikjum í Lengjubikarnum þar sem þrír af leikjunum voru gegn 1. deildarliðum. Reynsluleysi gæti líka háð liðinu í sumar. Þó að innan liðisins séu nokkrir reynsluboltar með mörg hundruð leiki á bakinu munu margir ungir og óreyndir leikmenn þurfa að spila stór hlutverk í liðinu.
Þrír lykilmenn: Arnar Freyr Ólafsson markvörður getur varið eins og berserkur þegar sá gallinn er á honum. Fyrir utanaðkomandi virðist hann líka vera einn af leiðtogum liðsins. Atli Hrafn Andrason er góður fótboltamaður með mikið skap sem getur leyst flestar stöður framalega á vellinum. Það mun vera í hans verkahring að búa til færi fyrir HK liðið í sumar. Leifur Andri Leifsson ER andlegur leiðtogi HK-inga. Hann þarf að að vera sá aðili inni í klefa sem heldur uppi trú á verkefnið
Leikmaður sem á að fylgjast með: Birnir Breki Burknason, 18 ára vinnusamur kantmaður sem mun skapa usla í sumar.
Komnir:
Þorsteinn Aron Antonsson frá Val á láni
Viktor Helgi Benediktsson frá AB Argir í Færeyjum
Farnir:
Örvar Eggertsson í Stjörnuna
Ahmad Faqa til AIK (var á láni)
Anton Söjberg til Færeyja
Hassan Jalloh í Grindavík
Sigurbergur Áki Jörundsson í Stjörnuna (var á láni)
Dómur Einars fyrir gluggann: Örvar Eggertsson og Ahmad Faqa skilja eftir sig stór skörð sem erfitt verður að fylla. Auk þeirra hafa þeir misst Anton Sjöberg, Hassan Jalloh og Sigurberg Áka og í staðinn hafa þeir hafa aðeins fengið Þorstein Aron Antonsson sem er óskrifað blað í efstu deild. Vafalaust eiga HK ingar eftir að ná í 2-3 leikmenn fyrir mót en eins og staðan er í dag fá þeir 3 í einkunn fyrir gluggann
Leikmannalisti:
12. Stefán Stefánsson (m)
25. Arnar Freyr Ólafsson (m)
2. Kristján Snær Frostason
3. Ívar Orri Gissurason
4. Leifur Andri Leifsson
5. Þorsteinn Aron Antonsson
6. Birkir Valur Jónsson
8. Arnþór Ari Atlason
10. Atli Hrafn Andrason
11. Marciano Aziz
14. Brynjar Snær Pálsson
15. Hákon Freyr Jónsson
16. Eiður Atli Rúnarsson
18. Atli Arnarson
19. Birnir Breki Burknason
20. Ísak Aron Ómarsson
21. Ívar Örn Jónsson
22. Andri Már Harðarson
28. Tumi Þorvarsson
29. Karl Ágúst Karlsson
30. Atli Þór Jónasson
77. Magnús Arnar Pétursson
Breki Ottósson
Viktor Helgi Benediktsson
Reynir Leó Egilsson
Snorri Steinn Árnason
Fyrstu fimm leikir HK:
7. apríl, KA - HK (Greifavöllurinn)
14. apríl, HK - ÍA (Kórinn)
20. apríl, FH - HK (Kaplakriki)
28. apríl, Vestri - HK (Kerecisvöllurinn)
5. maí, HK - Víkingur R. (Kórinn)
Í besta og versta falli: Í besta falli er það níunda sæti og í versta falli er það tólfta sæti.
Spámennirnir: Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Haraldur Örn Haraldsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Tómas Þór Þórðarson og Valur Gunnarsson.
Athugasemdir