Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
banner
   þri 27. ágúst 2024 13:13
Elvar Geir Magnússon
Hinn skrautlegi Daum allur - Skandall kom í veg fyrir að hann tæki við Þýskalandi
Christoph Daum.
Christoph Daum.
Mynd: Getty Images
Á síðasta ári kom út heimildarmynd um Christoph Daum en að auki hefur hann gefið út ævisögu.
Á síðasta ári kom út heimildarmynd um Christoph Daum en að auki hefur hann gefið út ævisögu.
Mynd: Getty Images
Þjóðverjinn Christoph Daum er látinn eftir baráttu við lungnakrabbamein en hann var 70 ára gamall og hafði reykt stærstan hluta ævinnar. Hann var einn fremsti fótboltaþjálfari Evrópu á sínum tíma og gerði Stuttgart að Þýskalandsmeistara 1992 en þá lék Eyjólfur Sverrisson með liðinu.

Daum var svo við stjórnvölinn hjá Bayer Leverkusen þegar liðið fékk gælunafnið 'Neverkusen' en undir hans stjórn lenti liðið þrívegis í öðru sæti. Hann átti að taka við þýska landsliðinu árið 2000 en ekkert varð af því.

Í slúðurblöðunum
Daum var ákaflega umdeildur persónuleiki þegar hann kom fram á sjónarsviðið, var ákafur, þótti hrokafullur og fékk andstæðinga sína upp á móti sér. Hann og Jupp Heynckes, þá stjóri Bayern München, elduðu grátt silfur saman en Daum sagði við Heynckes í sjónvarpsþætti að hann væri 'leiðinlegur eins og svefntafla'.

Ýmsar sögusagnir voru í gangi um Daum og í slúðurblöðum var meðal annars fjallað um eiturlyfjaneyslu hans, meint hópkynlíf með vændiskonum og vafasamt fasteignabrask á Spáni.

Allar þessar sögur höfðu truflandi áhrif þegar Daum var efstur á blaði yfir næsta landsliðsþjálfara Þýskalands. Uli Höness sem þá var framkvæmdastjóri Bayern München sagði í viðtali að Daum gæti ekki tekið við landsliðinu ef sögusagnirnar væru sannar. Þessi ummæli sköpuðu mikið fjölmiðlafár og Daum svaraði á þá leið að Höness væri að reyna að klekkja á sér.

Kókaínskandallinn
Eftir þrýsting samþykkti Daum að gefa sýni til að stöðva sögusagnir um kókaínneyslu. Á frægum fréttamannafundi sagðist hann gera það til að sýna fram á að samviska sín væri algjörlega hrein. Höness taldi að hann væri að tapa deilunni og var tilbúinn að biðjast afsökunar. En þá kom niðurstaðan úr sýnatökunni.

Í ljós kom mikil kókaínneysla frá Daum sem viðurkenndi eiturlyfjanotkun. Hann var rekinn frá Bayer Leverkusen og verðandi vinnuveitendur hans, þýska fótboltasambandið, hætti við að ráða hann. Daum fór beinustu leið út á flugvöll og fór til Miami í Bandaríkjunum til að losna við fjölmiðlastorminn. Hann var í Bandaríkjunum í þrjá mánuði en þegar hann kom til baka bað hann Höness og þýska sambandið afsökunar.

Þjálfaraferill Daum hélt svo áfram og hann vann titla hjá Besiktas og Fenerbahce í Tyrklandi og Austria Vín í Þýskalandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner